Frá fortíðinni, hönd í hönd inn í framtíðina
Húnavallaskóli hefur síðustu þrjú árin tekið þátt í Comeniusarverkefni, ásamt skólum í fimm öðrum löndum; Noregi, Spáni, Grikklandi, Póllandi og Ítalíu. Verkefnið ber yfirskriftina „From past, hand in hand, for future“ og fjallar um það hvernig þátttakendur geta staðið saman og gert framtíðina betri.
Í síðustu viku voru fulltrúar frá Noregi, Póllandi, Grikklandi og Spáni í heimsókn í Húnavallaskóla og leit Feykir við á kveðjukvöldinu, þar sem hver skóli flutti skemmtiatriði og boðið var til veislu með þjóðlegum íslenskum mat og veglegum kaffiveitingum, að sveita sið.
Að sögn Sonju Suska, sem er verkefnisstjóri fyrir Húnavallaskóla, hefur verkefnið staðið yfir í eitt árog stendur 1 á í viðbót. Þátttakendur eru frá áðurnefndum fimm löndum, auk Húnavallaskóla fyrir hönd Íslands. Tyrkland var með í fyrra en voru að hætta núna. Í vetur taka 21 nemandi í Húnavallaskóla þátt í verkefninu en það er valfag í skólanum.Búið er að heimsækja Ítalíu og Spán og 2 kennarar foru til Tyrklands á undirbúningsfund en í vetur stendur til að heimsækja Noreg og Grikkland. Í heimsókninni til Íslands höfðu erlendu þátttakendurnir gist á heimilum þátttakenda, farið á sýningu í reiðhöllinni, gist saman í Húnavallaskóla og heimsótt Mývatn, kröflustöð, Akureyri og nærliggjandi staði. Þemað á Íslandi er: How did environmental questions change the job market? Gestgjafarnir fylgdu þeim síðan áleiðis suður og var þá m.a. farið í heimsókn á Landnámssetrið í Borgarnesi.
„Ótrúlega skemmtilegt og fræðandi“
Magnea Rut Gunnarsdóttir nemandi í 10. bekk í Húnavallaskóla hefur verið með í verkefninu frá upphafi og ferðast til Spánar í tengslum við það. Hún segir verkefnið ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt og útskýrir fyrir blaðamanni að það gangi út á hvernig við getum staðið saman og gert framtíðina betri. „Á Spáni vorum við að fjalla um gömlu störfin og hvernig þau voru unnin en á Ítalíu var fjallað um hvaða eiginleika maður þyrfti að hafa fyrir hvert starf og hvernig maður gæti undirbúið sig fyrir draumastarfið. Hérna á Íslandi höfum við verið að fjalla um störf tengd náttúruvernd, t.d. í rafmagni eða jarðfræði. Í Noregi verður fjallað um iðju og handverk búa til vörur, markaðsetja og selja, það verður farið þangað í mars og til Grikklands í maí,“ segir Magnea. Að sögn Magneu fer þátttaka nemenda í utanlandsferðunum eftir frammistöðu í verkefninu. „Það er valið eftir verkefnaskilum og árangri og hvað við leggjum á okkur til að fá að fara.“ Sjálf er Magnea búin að fara til Spánar. „Það var mjög gaman að fara þangað, við vorum að kynna landið, syngja dægurlög fyrir þau og svo lærðum við t.d. um osta- og brauðgerð hjá þeim, eins og það var í gamla daga.“ Magnea segir að verkefnið sé mjög skemmtilegt og lærdómsríkt og snerti nánast öll fög sem kennd eru í skólanum, t.d. náttúrufræði, sögu og tungumál. Á milli heimsókna hefur hópurinn samskipti í gegnum facebook og þegar líða fer að heimsóknum fá þátttakendur að vita hverjir gista hvar og þá eru viðkomandi búin að kynnast aðeins áður en kemur að heimsóknunum. Hún segir samskiptin vera mikil og þau séu búin að kynnast hvert öðru mjög vel. |