Framkvæmdir á Deplum hafa tafist
Eins og Feykir hefur áður fjallað um standa yfir miklar framkvæmdir á jörðinni Deplum í Stíflu í Fljótum. Eru þar hafnar byggingarframkvæmdir við 1200-1500 fermetra skíða- og veiðihús. Að sögn athafnamannsins Orra Vigfússonar sem stendur að framkvæmdunum ásamt viðskiptafélögum sínum hafa framkvæmdir gengið hægar en til stóð.
„Við ætluðum að nýta meira af útihúsunum og endurbæta þau en undirstöður reyndust ekki nógu góðar þannig að farið var út í að rífa og endurbyggja meira en til stóð,“ sagði Orri þegar Feykir sló á þráðinn til hans í gærmorgun. Orri segir að á þessum tímapunkti sé ekki ljóst hvenær framkvæmdum ljúki. „Það stóð til að verkinu yrði lokið í mars 2015 en við eigum eftir að halda fund til að endurmeta stöðuna. Við erum að reyna að setja kraft í þetta núna.“
Óskir Orra og félaga um að taka yfir flugvöllinn á Siglufirði hafa verið til umræðu í fjölmiðlum að undanförnu. Vellinum var lok í júlí sl. í hagræðingarskyni. Orri segist ekki hafa heyrt frá hlutaðeigandi yfirvöldum síðan snemma í sumar en reiknar með að viðræður standi yfir milli þeirra sem málið varðar og vonast eftir að frétta af því einhvern tímann í haust. Hann segir völlinn gríðarlega mikilvægan vegna þeirrar heilsársaðstöðu sem verið er að byggja upp á Deplum. „Við viljum gjarnan að flugvöllurinn verði áfram í rekstri svo okkar fólk geti lent þar,“ sagði Orri í samtali við Feyki.