Fréttir frá Skagfirskum Strengjum
Það er alltaf nóg að gera hjá nemendum strengjadeildarinnar hjá Tónlistarskóla Skagafjarðar. Auk þess að sinna hinu daglega námi eru margir nemendur að undirbúa stærri próf auk þess sem nemendur hafa verið duglegir að sækja námskeið um land allt.
Landsmót strengjanemenda var haldið í október á Egilsstöðum og fóru nokkrir nemendur okkar á það mót og stóðu sig með prýði og voru skólanum til sóma í allri framkomu. Nokkrir nemendur sóttu nú í mars námskeið í Hörpu hjá þeim Gretu Salóme og Alexander Rybak. Var þetta stórskemmtilegt námskeið sem kallaðist Spilagleði og átti það nafn vel við. Margir nemendur sóttu svo tónleika þeirra Gretu og Alexanders í Hofi síðasta föstudag.
Nótan er uppskeruhátíð tónlistarskólanna og var hún haldin hátíðleg um land allt þessa helgi með svæðistónleikum. Við tilheyrum Norður- og Austurlandi og voru okkar svæðistónleikar á Egilsstöðum þetta árið. Alls áttu tólf skólar fulltrúa á þessum tónleikum og tóku tæplega níutíu ungir flytjendur þátt ásamt meðleikurum. Alls voru flutt 35 atriði á tónleikunum, 18 í grunnnámsflokki og 17 í mið-, framhalds- og opnum flokki. Sjö atriði voru valin áfram til að taka þátt í lokatónleikum Nótunnar í Hörpu 2. apríl. Þátttakendur frá Tónlistarskóla Skagafjarðar komu frá strengjadeildinni og voru flutt tvö atriði, eitt samspilsatriði og eitt einleiksatriði.
Kúrekarnir eru kvartett sem ungar og efnilegar strengjastúlkur skipa en það eru þær Auður Ásta Þorsteinsdóttir fiðla, Ragnhildur Sigurlaug Guttormsdóttir fiðla, Helga Þóra Siggeirsdóttir fiðla og Rebekka Helena Róbertsdóttir selló. Þær léku þjóðlagið Old McDonald í útsetningu Helenar Butterworth og vöktu þær mikla athygli fyrir góða spilamennsku og prúða framkomu. Ragnhildur Sigurlaug lék einnig Humoresku eftir Dvorak fiðlu og var það einleiksatriði. Gekk það mjög vel og var að lokum valið til að fara á lokatónleikana í Hörpu 2. apríl. Allir þátttakendur hlutu viðurkenningu fyrir þátttöku en einnig hlutu valverkefni fallegan verðlaunagrip.
Má með sanni segja að stúlkurnar okkar hafi staðið sig mjög vel bæði í undirbúningi og svo á tónleikunum sjálfum. Einnig er ekki sjálfgefið að ferðast svona langa leið eins og til Egilsstaða til að leika á tónleikum en það gerðu þær auk mæðra sinna og eiga hrós skilið. Meðleikari með stúlkunum var Páll Barna Szabó frá Tónlistarskólanum á Tröllaskaga og þökkum við honum kærlega fyrir.
Nú á vordögum fær strengjadeildin svo skemmtilega heimsókn frá Tónlistarskólanum á Akranesi þegar strengjahópur þaðan kemur og æfir með strengjadeildinni hér og verða skemmtilegir tónleikar þann 29. apríl.
Hér fyrir neðan má sjá vídeó og nokkrar skemmtilegar myndir frá starfinu okkar og ferðalögum.
Kristín Halla Bergsdóttir
Lokalag á tónleikum með Gretu Salome og Alexander Rybak. Strengjadeild skólans átti 5 nemendur í hópnum..... plús einn sem nýfluttur er frá okkur.
Posted by Tónlistarskóli Skagafjarðar on 20. mars 2017
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.