Freyja Rut og Helgi Sæmundur ráðin að 1238

Freyja Rut Emilsdóttir og Helgi Sæmundur Guðmundsson. Myndir af Facebooksíðu 1238.
Freyja Rut Emilsdóttir og Helgi Sæmundur Guðmundsson. Myndir af Facebooksíðu 1238.

Stefnt er að því að sýningin 1238 – Baráttan um Ísland opni í næsta mánuði og er undirbúningur nú í fullum gangi fyrir opnun sýningarinnar. Sagt var frá því á Facebooksíðu 1238 rétt í þessu að gengið hafi verið frá ráðningu tveggja vakststjóra við sýninguna, þeirra Freyju Rutar Emilsdóttur og Helga Sæmundar Guðmundssonar.

Freyja Rut er uppalin á Sauðárkróki. Hún starfaði við Upplýsingamiðstöð ferðamála í Varmahlíð, lærði til grunnskólakennara og kenndi um árabil í Vogaskóla en nam síðan menningarstjórnun, ferðamál og lærði til markþjálfa. Freyja hefur starfað við fjölbreytt verkefni á undanförnum árum og hefur til að mynda kennt við ferðamáladeild Háskólans á Hólum nú í vetur. 
Helgi Sæmundur ólst upp á Sauðárkróki. Að loknu stúdentsprófi fór hann til náms í tónlist og sem síðan hefur átt hug hans allan og er hann er helmingur hinnar frægu rappsveitar Úlfur Úlfur. Auk þess hefur hann unnið við hljóðupptökur og hljóðblöndun sem og samið tónlist fyrir sjónvarpsþætti og auglýsingar.
Freyja Rut og Helgi Sæmundur koma til starfa hjá 1238 undir lok mánaðarins.

Nú er ráðningum á sumarstarfsfólki að mestu lokið en alls verða 12-14 starfsmenn í húsnæði sýningarinnar í sumar.

Á Facebooksíðu sýningarinnar segir ennfremur að endurbótum á húsnæðinu sem mun hýsa sýningarnar sé að ljúka og uppsetning sýninga og tæknibúnaðar fari fram á næstu vikum. Endurbótum í Gránu sem muni hýsa veitingasal, upplýsingamiðstöð og safnbúð ljúki í maí og stefnt sé að opnun sýningarinnar í maímánuði.

Ráðning þeirra Freyju og Helga Sæmundar er stórt skref fyrir verkefnið að sögn Áskels Heiðars Ásgeirssonar, framkvæmdastjóri 1238. „Það er mjög ánægjulegt að þetta verkefni sé þegar farið að skapa möguleika fyrir ungt fólk að finna vinnu við sitt hæfi á Sauðárkróki. Við erum komin með mjög skemmtilegan hóp sem ætlar að hleypa þessari starfsemi af stokkunum með okkur í sumar og hér vinnur frábær hópur iðnaðarmanna og sýningarhönnuða með okkur að því að koma húsnæðinu og sýningum í það horf sem við viljum. Við erum því mjög bjartsýn á verkefnið og framtíðina og hlökkum til að opna dyr okkar fyrir gestum í næsta mánuði,“ segir Áskell Heiðar ennfremur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir