Frímúrarar lögðu Kaupfélagið og sýslumann
Rúv.is segir frá því að frímúrarastúkan í Skagafirði væri laus undan þeirri kvöð að deila eignarhaldi á húsi á Sauðárkróki með Kaupfélagi Skagfirðinga og fleirum. Frímúrararnir hafa fengið það staðfest með dómi að Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra hafi gert mistök fyrir tæpum sex árum þegar hann staðfesti samning um eignaskipti á húsinu.
Fram kemur í fréttinni að í ljós hafi komið að sá sem undirritaði samninginn fyrir frímúrarastúkuna hafði ekki haft umboð til þess en málið varðar fasteignina Borgarmýri 1 á Sauðárkróki þar sem Trésmiðjan Borg er til húsa.
Trésmiðjan Borg sem er í 100% eigu Kaupfélagsins, er einnig með hluta hússins að Borgarmýri 1a undir starfsemi sína en í því húsi er ýmis starfsemi m.a. skrifstofur stéttarfélagsins Öldunnar, Verslunarmannafélags Skagafjarðar, KPMG og fleiri. Í húsinu er einnig aðstaða Mælifells, frímúrarastúku Skagafjarðar.
Forsaga málsins er á þá leið að árið 2012 eignaðist banki trésmiðjuhúsnæðið að Borgarmýri 1 og þrjá eignarhluta af fimm í Borgarmýri 1A og ákvað að sameina húsin í eitt með eignaskiptayfirlýsingu. Fulltrúar annarra eigenda hússins, þar á meðal frímúrarastúkunnar, undirrituðu eignaskiptayfirlýsinguna, sem sýslumaður staðfesti síðan.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ritarinn sem undirritaði eignaskiptayfirlýsinguna fyrir frímúraranna hafi enga heimild haft til þess og sýslumanni hafi borið að ganga úr skugga um að svo væri. Það hafi verið mistök að gera það ekki áður en yfirlýsingunni var þinglýst og af þessum sökum sé yfirlýsingin ógild og það beri að afmá hana úr þinglýsingabók.
Kaupfélag Skagfirðinga var því dæmt til að greiða Frímúrarastúkunni Mælifelli rúmar 1,2 milljónir króna í málskostnað. Ártorgi ehf. og Öldunni stéttarfélagi var einnig stefnt í málinu en létu það ekki til sín taka að öðru leyti en að krefjast þess að þeim yrði ekki gert að greiða málskostnað.
Sjá frétt RÚV HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.