Fullt hús á bændafundi á Blönduósi í gærkvöldi
Í gærkvöldi stóðu Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda og Félag sauðfjárbænda í Skagafirði fyrir opnum umræðufundi sem haldinn var í Félagsheimilinu á Blönduósi þar sem staða sauðfjárbænda var rædd. Á fjórða hundrað manns mættu á fundinn og var þungt yfir fundargestum enda um grafalvarlegt mál að ræða þar sem fyrirhuguð skerðing sláturleyfishafa á afurðaverði gæti valdið allt að 56% launalækkun til bænda. Framsögu á fundinum höfðu þau Ágúst Andrésson, formaður Landssamtaka sláturleyfishafa, Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda og Sigríður Ólafsdóttir, ráðunautur á rekstrarsviði RML.
Á vef Ríkisútvarpsins segir að í máli Sigríðar Ólafsdóttur hafi komið fram að hún verði vör við mikla gagnrýni á markaðssetningu afurða og að hún vildi sjá meiri vöruþróun í framleiðslu. Ennfremur sagði hún fundargesti skynja uppgjöf jafnt hjá formönnum bænda og talsmanni afurðastöðva.
Þá sagði Sigríður að afleidd áhrif bágrar stöðu bænda geti orðið mikil ef ekkert verði að gert. „Á mínu heimasvæði, Húnaþingi vestra, er stór hluti af störfum á Hvammstanga sem snýst um að þjónusta bændur. Þannig að ef bændurnir hverfa þá hverfa þessi störf líka. Þetta snýst ekki bara um tekjulækkun til bænda heldur allt samfélagið.“
Sauðfjárbú eru rekin með tapi, sama hversu stór þau eru, miðað við útreikninga Sigríðar sem hún birti á fundinum þar sem hún reiknaði út tekjuafgang fyrir 100 kinda bú, 500 kinda bú og 1000 kinda bú og alls staðar reiknaðist tap. Tapið var lítið á 100 kinda búinu, um ein milljón tapaðist á 500 kinda búinu og yfir þrjár milljónir tapast á 1000 kinda búi. Staðan sé alvarlegust hjá ungum og skuldsettum bændum að sögn Sigríðar sem telur að afurðaverð þurfi að vera að minnsta kosti svipað og það var árið 2015 til að viðunandi sé.
Á mbl.is segir að Ágúst Andrésson, formaður Landssamtaka sláturleyfishafa, hafi lagt til að tekin yrði upp að nýju útflutningsskylda sem afnumin var árið 2008, fyrst og fremst til að koma í veg fyrir offramboð lambakjöts á Íslandsmarkaði. Einnig segir að bóndi sem til máls tók á fundinum hafi gagnrýnt sláturleyfishafa harðlega fyrir að hafa ekki gert nægilega mikið fyrir innanlandsmarkað. Hrósaði þeim fyrir átak og árangur á erlendum mörkuðum en sagði að innlendir markaðir hefðu setið eftir. Nánar er sagt frá fundinum í Morgunblaðinu í dag.