Fundu illa útleikin hræ eftir dýrbíta
Garðar P. Jónsson, framhaldsskólakennari og grenjaskytta á Melstað í Óslandshlíð, var ásamt fleirum í göngum í Deildardal, þegar gengið var fram á hræ af tveimur lömbum og einn fullorðinni rollu. Þá fannst ein gimbur sem var lifandi en illa særð og eitt hræ í viðbót sást en náðist ekki á mynd. Garðar sendi Feyki myndir af illa útleiknum hræjum og hafði blaðamaður samband við hann til að spyrjast fyrir um málið.
„Þau hafa öll verið lifandi þegar ráðist var á þau, alla vega lömbin. Það voru ekki nein ummerki um að þau hafi verið afvelta eða nokkuð að þeim á nokkurn hátt,“ segir Garðar og bætir við að hann telji líklegt að féð sé svona útleikið eftir ref. „Mér finnst líklegra að þetta sé eftir ref heldur en hund, bæði er það að þetta er nánast innst í dalnum og önnur ummerki segja til að refir hafi unnið þarna að. Eitt hræið, það elsta, var bitið á snoppu, sem er öruggt merki um ref.," sagði Garðar m.a. í samtali við Feykir, en nánar er fjallað um málið í 36. tölublaði Feykis sem út kom í dag.