Fundur Samfylkingarinnar á Sauðárkróki í gær

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi og 1. varaforseti Alþingis, ásamt Guðmundi Andra Thorssyni, þingmanni suðvesturkjördæmis og varaformanni þingflokks Samfylkingarinnar, tóku á móti gestum á opnum fundi um samfélagsmál á Kaffi Krók á Sauðárkróki í gær. Auglýst hafði verið að Helga Vala Helgadóttir yrði einnig á fundinum en hún þurfti að sitja annan fund í Reykjavík á sama tíma.
Þótt ekki hefði verið fjölmennt sköpuðust ágætar samræður á fundinum. Sagði Guðjón frá ferðalagi þeirra þriggja um héraðið fyrr um daginn og öll voru þau hrifin af því mikla starfi og krafti sem í Skagfirðingum býr. Sérstaklega var Háskólin á Hólum nefndur og áhersla lögð á að mikilvægt væri að hlúa að honum í framtíðinni.
„Nú er kjördæmavika og þá förum við út um kjördæmin eins mikið og við getum til þess að hitta fólk og heyra álit þess á stöðu mála.“ Guðjón sagði að þingið hefði starfað með óvenjulegum hætti og yfirbragðið ekki honum að skapi en þrátt fyrir allt hafi þingið skilað verkum sínum. „Það hefur unnið sín störf og samþykkt lög og ályktanir og staðið sig að því leytinu til. En auðvitað hefur andrúmsloftið verið mjög þungt í þinginu og hefur haft áhrif á samstarf einstaklinga innan þingsins,“ sagði Guðjón og átti þar við einstaklinga sem mikið hafa verið í fréttum vegna Klausturmálsins. Guðjón ræddi um þau mál sem Samfylkingin hefur komið að á Alþingi og eru þau fjölmörg. Voru nefnd mál eins og veiðigjöld, heilbrigðisstefna, sem lögð var fram sem þingsályktunarstefna, og samgönguáætlun sem samþykkt var í síðustu viku.
Guðmundur Andri fór m.a. yfir verkefni þingsins , hlutverk og stöðu stjórnarandstöðunnar. Hann sagði að nokkuð vel gangi að vinna með hinum stjórnarandstöðuflokkunum, flestum. „Okkur gengur ágætlega að vinna með Viðreisn og ágætlega með Pírötum en það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur að okkur gengur dáldið misjafnlega að vinna með Miðflokknum. Okkur gengur vel að vinna með sumum í Miðlokknum, sumum gengur okkur verr að vinna með. Það vill svo einkennilega til að það voru þeir sömu þingmenn Miðflokksins sem töluðu svo illa um okkur á Klaustri,“ upplýsti Guðmundur Andri. Lagði hann áherslu á hversu mikilvægt það væri að almenningur bæri traust til þingsins og þingmanna enda væri þingmennska eitt mikilvægasta starf þjóðfélagsins.