Fundur um stöðu atvinnumála. Tilkynning frá sveitarstjórn Húnaþings vestra.

Laugardaginn 6. desember sl. boðaði sveitarstjórn Húnaþings vestra atvinnurekendur og forsvarsmenn stofnana í sveitarfélaginu til viðræðna um stöðu atvinnumála í héraði. Mjög góð mæting var á fundinn þar sem flestir fundarmanna greindu frá stöðu og horfum í sínum atvinnurekstri á næstu mánuðum og misserum.

Sem vænta mátti er staða atvinnufyrirtækja og stofnana í sveitarfélaginu afar misjöfn og almennt ríkir nokkur óvissa um áhrif breytinga í efnahagsumhverfinu á afkomu þeirra. Alls 12 manns eru nú skráðir án atvinnu í sveitarfélaginu en verktakar í byggingariðnaði hafa m.a. þurft að grípa til uppsagna á starfsmönnum. 

Á fundinum kom fram að staða Heilbrigðisstofnunarinnar Hvammstanga er afar erfið en þar hefur verið um að ræða viðvarandi hallarekstur á liðnum árum. Ástæða þess er öðru fremur sú að fjárveitingar til stofnunarinnar hafa ekki tekið mið af aukinni starfsemi m.a. nýtingu leguplássa og aukinni hjúkrunarþyngd.

Þá kom fram að aðilar í verslunarrekstri hafa enn sem komið er ekki merkt samdrátt í verslun en telja að verslun með sérvöru muni dragast saman. Aðilar í ferðaþjónustu og framleiðslu útflutningsvara sjá hins vegar aukin tækifæri í sínum rekstri sökum veikingar krónunnar en forsvarsmenn bænda hafa að sama skapi verulegar áhyggjur af afkomu landbúnaðarins vegna mikilla hækkana á aðföngum en lítilli hækkun afurðaverðs.

Fundarmenn lýstu almennri ánægju með boðun fundarins. Sérstaklega voru menn ánægðir að fá tækifæri til að skiptast á upplýsingum um stöðu og horfur í einstökum atvinnugreinum. Líkt og í flestum öðrum sveitarfélögum ríkir óvissa um stöðu atvinnumála í Húnaþingi vestra þrátt fyrir að aukin tækifæri geti skapast í ferðaþjónustu og útflutningsgreinum.

 

Hvammstanga 19.12.2008

Skúli Þórðarson, sveitarstjóri.

Fleiri fréttir