Fyrsta skóflustungan tekin að nýjum leikskóla á Hofsósi

Anna Á. Stefánsdóttir mundar skófluna ásamt leikskólabörnum á Tröllaborg, Ásrún Leósdóttir stendur álengdar. Mynd: Auður Björk.
Anna Á. Stefánsdóttir mundar skófluna ásamt leikskólabörnum á Tröllaborg, Ásrún Leósdóttir stendur álengdar. Mynd: Auður Björk.

Börn í leikskólanum Tröllaborg á Hofsósi, ásamt Önnu Árnínu Stefánsdóttur, leikskólastjóra, og Ásrúnu Leósdóttur, deildarstjóra, tóku í gær fyrstu skóflustunguna að nýjum leikskóla sem rísa mun á staðnum. Athöfnin fór fram í björtu og fallegu vorveðri sem var vel við hæfi.

„Það er sérstaklega ánægjulegt að framkvæmdin sé farin af stað og verktakinn ætlar sér að vinna verkið hratt og vel. Það er stefnt að því að nýr leikskóli geti verið kominn í gagnið snemma á næsta ári og þá er langþráðum áfanga náð,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Svf. Skagafjarðar, vongóður um að nýr skóli muni breyta miklu.

„Leikskólinn á Hofsósi er þá kominn í nýtt og gott húsnæði sem stenst allar kröfur sem gerðar eru til starfseminnar, auk þess sem hægt er að bæta fleirum börnum við í leikskólavistun ef eftirspurn eykst. Þá horfa menn einnig til frekari uppbyggingar á svæðinu því í fjárhagsáætlun ársins 2020 er gert ráð fyrir hönnun á íþróttahúsi á Hofsósi.“ Hann segist hlakka ákaflega til þess að sjá starfsemina hefjast í nýrri og glæsilegri byggingu.
Byggingafélagið Uppsteypa sjá um framkvæmdir en það átti lægsta tilboð í verkið, 159.705.806 kr.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir