Fyrsta skóflustungan tekin að viðbyggingu Grunnskóla Húnaþings vestra
Fyrsta skóflustungan að viðbyggingu Grunnskóla Húnaþings vestra, sem einnig mun hýsa Tónlistarskóla Húnaþings vestra, var tekin í dag. Viðbyggingin, sem tengist eldra húsnæði skólans á norðurhlið, er á einni hæð en stallast í þrjá palla sem hækka með landinu. Kjallari er undir húsinu að hluta. Í byggingunni er rými fyrir frístund, stjórnun, eldhús, mat-/samkomusal, tónlistarskóla, bókasafn, starfsmannaaðstöðu og þrjár kennslustofur fyrir unglingastig. Í kjallara er verkstæði, geymsla og tæknirými. Viðbyggingin er um 1200 fermetrar og er það vinnan við fyrsta áfanga af átta sem nú er að hefjast.
Á vef Húnaþings vestra er aðdragandinn að þessu skrefi rakinn. Þar segir „Formlegur undirbúningur að byggingunni hófst 2017 þegar byggðarráð skipaði starfshóp sem meta átti þarfir skólans í húsnæðismálum. Í nóvember sama ár var haldinn fjölmennur íbúafundur um framtíðarskipan skólamála í Húnaþingi vestra. Í upphafi árs 2018 skipaði sveitarstjórn byggingarnefnd til að undirbúa viðbyggingu við grunnskólann og var nefndinni m.a. falið að vinna forskrift fyrir samanburðartillögukeppni um skólabygginguna þar sem þremur arkitektastofum var boðin þátttaka. Í framhaldinu var gengið til samninga við VA arkitekta. Byggingarnefnd vann síðan að nánari útfærslu og lausnum á fjölmörgum þáttum sem snúa að undirbúningi og hönnun viðbyggingar í samstarfi við VA arkitekta og hagsmunaðila. Þær áskoranir sneru mest að rýmisþörf tónlistarskóla, legu byggingar, aðgengi milli skóla og íþróttamiðstöðvar, aðkomuleiðir og lóðarhönnun. Í mars 2019 var endurbætt tillaga kynnt sveitarstjórn og hagsmunaaðilum og í apríl sama ár var haldinn opin kynningarfundur á lokatillögunni.“
Starfsumhverfi kennara og nemenda mun breytast mjög til batnaðar með nýju byggingunni auk þess sem fjölmörg tækifæri skapast með því tónlistarskólinn flytjist undir sama þak og grunnskólinn. „Það er því tilhlökkunarefni að sjá nýja húsnæðið rísa og undirbúa samvinnu skólastofnanna tveggja undir sama þaki,“ segir á vef sveitarfélagsins.
Áætlað er að skólahúsnæðið verði tilbúið og tekið í notkun haustið 2022.