Fyrsta tap sumarsins staðreynd á Ásvöllum

Stólastúlkur. MYND: ÓAB
Stólastúlkur. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls og Hauka áttust við í 7. umferð Lengjudeildar kvenna á Ásvöllum í Hafnarfirði í gærkvöldi. Stólastúlkur sátu á toppnum fyrir umferðina en þær náðu aldrei vopnum sínum í leiknum og vinnusamar heimastúlkur gerðu eitt mark í hvorum hálfleik og unnu leikinn því 2-0. Sem var auðvitað hundfúlt þó ekki nema vegna þess að leikurinn var í beinni á Stöð2Sport og alveg örugglega fyrsti knattspyrnuleikurinn sem sýndur er með Tindastól í beinni á einni af stóru sjónvarpsstöðvunum.

Lítið var um færi framan af leik en ljóst var að ef Haukastúlkur ætluðu að blanda sér í baráttunni um sæti í efstu deild þá urðu þær að næla í stigin þrjú og hægja á skriði Stólastúlkna. Lið Hauka fékk skástu færi leiksins áður en þær komust yfir á 32. mínútu en þá setti Vienna Behnke aukaspyrnu í gegnum varnarvegg gestanna og í nærhornið. Á lokamínútum fyrri hálfleiks var lið Tindastóls nálægt því að jafna; fyrst fór skalli frá Hrafnhildi í þverslá og yfir og síðan átti Laufey Harpa gott skot sem stefndi efst í bláhornið en Chante Sandiford var í toppformi í marki Hauka í gær og blakaði boltanum yfir. Haukar unnu Tindastól á gervigrasinu á Króknum í fyrrasumar og þá varði Sandiford einmitt eins og berserkur.

Síðari hálfleik var ekki góður af hálfu Tindastóls og heimastúlkur fengu betri færi í heildina. Annað mark þeirra kom á 55. mínútu þegar Behnke náði frekar saklausri þversendingu á miðjum vallarhelmingi Stólastúlkna og með fyrstu snertingu komst hún inn fyrir vörnina og kláraði af öryggi framhjá Amber í markinu. Besta færi Tindastóls í síðari hálfleik fékk Murielle eftir fína sendingu frá Jackie, hún komst framhjá Sandiford í teignum en hún náði engu að síður að skutla sér fyrir skot Mur og bjarga markinu. Bæði lið fengu nokkur hálffæri það sem eftir lifði en fleiri urðu mörkin ekki.

Hvers vegna tapaðist leikurinn?

Feykir hafði samband við Jón Stefán, annan þjálfara Stólastúlkna, og spurði hann þeirrar leiðindaspurningar hvers vegna leikurinn í gærkvöldi tapaðist. Svarið var langt. „Leikurinn í gær tapaðist á mörgum litlum atriðum sem samt skipta svo miklu máli. Í fyrsta lagi vorum við bara ólík sjálfum okkur, vorum hikandi í okkar spili og töpuðum flestum návígjum. Þetta var bara á góðri íslensku ekki okkar dagur og lélegur leikur. Fyrsta markið kemur úr aukaspyrnu sem fer í gegnum varnarvegginn okkar og er auðvitað algjörlega óafsakanlegt. Þegar maður er í vegg þá er það til þess að fá boltann í sig. Og annað markið er bara klaufaskapur þar sem boltinn tapast á slæmum stað og Haukar labba í gegnum hryggsúluna í liðinu okkar. 

Við eigum í smá vandræðum, Jackie spilaði en hefur ekkert æft í viku og mun ekki æfa næstu 10 daga vegna meiðsla. Aldís hefur heldur ekkert æft og átti i raun aldrei að koma inn á í gær. Bergljót hefur einnig verið meidd og fékk svo höfuðhögg í gær. Þess utan er Hallgerður farin og það skal fram tekið að þó þær sem komu inn fyrir hana hafi staðið sig vel þá setur það alltaf jafnvægi í liði úr skorðum þegar breyta þarf miklu milli leikja í varnarlínu. 

Hafandi sagt allt þetta þá skal það tekið fram að þetta tap ætti nú bara að efla okkur, við mætum klár í næsta leik sem er gegn ÍA og ætlum okkur ekkert annað en sigur. Það á andskoti illa við okkur að tapa og er bara sannast sagna eitthvað sem okkur hundleiðist!“ segir Jónsi.

Lið Tindastóls er nú í öðru sæti Lengjudeildarinnar en Keflavík er á toppnum. Þá er í pípunum að lið Stólastúlkna verði styrkt um leið og glugginn opnast að lokinni verslunarmannahelgi. Þrjár stelpur hafa nú yfirgefið liðið og eru farnar utan í skóla. „Við erum að verða annsi þunnskipaðir í þessu og þurfum að þétta raðirnar,“ segir Jónsi.

Leikurinn gegn ÍA fer fram á Króknum fimmtudaginn 6. ágúst og hefst kl. 19:15. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir