Gaddfreðnir Garðbæingar lutu í gras

Kyen Nicholas skorar þriðja og síðasta mark leiksins í gær með þrumuskoti. MYND: ÓAB
Kyen Nicholas skorar þriðja og síðasta mark leiksins í gær með þrumuskoti. MYND: ÓAB

Tindastólsmenn tóku á móti Knattspyrnufélagi Garðabæjar (KFG) á grasvellinum á Króknum í gær. Lið Tindastóls er langneðst í 2. deildinni og hafði fyrir leikinn aðeins unnið einn leik í sumar. Liðið hefur þó sýnt talsverð batamerki upp á síðkastið og Garðbæingar, sem virkuðu gaddfreðnir í norðlenska norðanstrekkingnum, reyndust Stólunum frekar þægilegur andstæðingur. Lokatölur 3-0 en lið Tindastóls sem fyrr í botnsætinu en nú með níu stig.

Sem fyrr segir var kalt á vellinum og ekki laust við að norðanvindurinn hefði áhrif á spil liðanna. Lið Tindastóls lék á móti vindi í fyrri hálfleik og þá vill nú oft verða töluvert auðveldara að stinga boltanum inn fyrir vörn andstæðinganna. Heimamenn fengu óskabyrjun þegar Arnar Ólafs gerði ágætt mark úr teignum strax á 5. mínútu. Á 12. mínútu var boltanum stungið inn fyrir á Kyen Nicholas og hann náði að hrista af sér varnarmenn KFG og skora af öryggi. Í stöðunni 2-0 gátu Stólarnir leyft sér að draga sig aðeins til baka og hóta skyndisóknum. Lið gestanna var því talsvert með boltann en Tindastólsmenn voru feyki vinnusamir og vörðust og börðust eins og ljón. Garðbæingar fengu fá færi í fyrri hálfleik, lítil ógn var úr hornspyrnum þeirra og þau fáu skot sem þeir áttu ógnuðu varla marki Faerbers sem átti óvenju náðugan dag í búrinu. Staðan 2-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik voru gestirnir áfram meira með boltann án þess að ógna að ráði. Stólarnir reyndu nú að hleypa Nicholas og Arnari á skeið en það vill oft vera höfuðverkur að setja rétta kraftinn í stungusendingarnar undan vindi og því varð raunin oftar en ekki sú að framherjarnir eltu boltann á harðahlaupum þangað til hann rúllaði aftur fyrir endamörk. Þekkt vandamál á Króknum í þau fáu skipti sem eitthvað blæs á vellinum! Gestirnir fengu 2-3 sæmileg skotfæri um og upp úr miðjum hálfleiknum en í raun var meiri hætta á ferðum þegar Stólarnir sóttu og náðu að halda boltanum niðri. Á 80. mínútu kom rothöggið. Kyen Nicholas náði boltanum úti á hægri kanti til móts við vítateig KFG, hann skaust inn á teig, lét vaða á markið og Stefán Björn í marki gestanna kom litlum vörnum við. Frábært mark. Sennilega væri staða Stólanna í deildinni betri ef Englendingurinn hefði skilað sér fyrr í skagfirsku sumarparadísina. Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði og annar sigur Tindastóls kærkominn.

Lið Tindastóls átti fínan leik í gær en liðið var án Konna Sigga Donna að þessu sinni og Fannar Kolbeins byrjaði á bekknum. Vörnin var þétt og Bjarki og Sverrir Hrafn áttu frábæran leik báðir tveir. Fyrir framan þá var Tanner hrikalega sterkur og Benni barðist eins og ljón. Fremstur var síðan Kyen Nicholas og ef lið Tindastóls kemur boltanum á hann þá er hann sterkur á honum þannig að Stólarnir ná að færa lið sitt ofar á völlinn. Hann gerði tvö góð mörk í dag og virkaði ánægður með dagsverkið. Þá má geta þess að lið Tindastóls fékk annan góðan bita í júlíglugganum þegar Þórsarar lánuðu okkur Aðalgeir Axelsson en hann hefur smollið vel inn í lið Tindastóls, sókndjarfur og skapandi.

Nú er búið að spila 16 umferðir í 2. deildinni og lið Tindastóls neðst með níu stig. KFG eru í 11. sæti með 15 stig og lið Kára á Akranesi er í 10. sæti með 17 stig. Það eru sex umferðir eftir og 18 stig í pottinum. Stólarnir geta því tæknilega náð í 27 stig en það er í þessu eins og svo mörgu öðru – einn dagur/leikur í einu. Áfram Tindastóll.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir