Gáfu forláta æfingahjól til endurhæfingar HSN

Í síðustu viku komu félagar í stjórn Sjálfsbjargar í Skagafirði færandi hendi til endurhæfingar HSN á Sauðárkróki og afhentu deildinni forláta æfingahjól. Tækið, sem er að verðmæti 790 þúsund krónur, er af gerðinni MOTOmed viva 2 og kemur frá fyrirtækinu Eirberg. Einnig fylgir gjöfinni sjónvarpsskjár og tæknibúnaður sem gerir þeim sem hjóla á því kleift að hjóla hinar ýmsu hjólaleiðir úti í heimi og fylgjast jafnframt með á skjánum.
Fanney Ísold Karlsdóttir, yfirsjúkraþjálfari hjá HSN á Sauðárkróki, segir að hjólið henti fyrir mjög breiðan hóp af fólki og sé það aðgengilegt fyrir hjólastóla jafnt sem aðra stóla. Þetta er rafmagnshjól sem hægt er að aðlaga að þörfum hvers og eins og álgið því breytilegt eftir getu skjólstæðingsins. Skjárinn á hjólinu sýnir vegalengd, tíma, hraða og þyngd sem hjólað er á en einnig hve mikil aðstoðin er frá mótornum. „Við færum félögum í Sjálfsbjörg í Skagafirði bestu þakkir fyrir höfðinglega gjöf,“ segir Fanney. Þess má einnig geta að félagið hefur áður fært endurhæfingunni fjögur tæki að gjöf.
Magnús G. Jóhannesson, formaður Sjálfsbjargar í Skagafirði, segir að aðstaðan sem í boði er á HSN sé gífurlega þýðingarmikil fyrir mjög marga félagsmenn en í því eru nú 55 félagar. Magnús segir að helstu verkefni félagsins séu að vera ávallt vakandi yfir því að hugað sé að aðgengi og þörfum fólks með einhvers konar hreyfihömlun ásamt því að vinna að fullkominni þátttöku og jafnrétti hreyfihamlaðra og annarra fatlaðra á öllum sviðum þjóðlífsins jafnframt því sem unnið er að helstu verkefnum landssambandsins. Fastir liðir í starfseminni eru að halda aðalfund og standa fyrir fjáröflunum s.s. bingói, aðventukvöldi og spilakvöldum. Næsti aðalfundur félagsins verður haldinn mánudaginn 23. mars klukkan 17:00 í Húsi frítímans.
Stjórn Sjálfsbjargar í Skagafirði skipa:
Magnús G. Jóhannesson, formaður, Ólafur R. Ólafsson, varaformaður, Stefanía Fjóla Finnbogadóttir, gjaldkeri, Sæunn H. Jóhannesdóttir, ritari. Meðstjórnandi er Svava Svavarsdóttir og varamaður séra Sigríður Gunnarsdóttir.