Gagnaveitan opnar fyrir ljósleiðarakerfi
Nú um mánaðarmótin opnar Gagnaveita Skagafjarðar nýtt ljósleiðarakerfi í Túnahverfi á Sauðárkróki. Er þetta fyrsta skrefið af mörgum í ljósleiðaravæðingu bæjarins en jarðvinnuframkvæmdir standa nú yfir í Hlíðahverfi sem og ídráttur ljósleiðara í blokkir við Víðigrund. Um opið kerfi er að ræða og geta hvaða þjónustuaðilar sem er veitt þjónustu sína yfir kerfið og notendur að sama skapi valið úr þjónustuframboði þeirra.
Í dag eru tvö fyrirtæki inni á kerfi Gagnaveitunnar; Fjölnet sem býður upp á internetþjónustu og Vodafone sem býður upp á internet- og símaþjónustu auk sjónvarpsdreifingar fyrir 365 miðla. Viðræður standa yfir við fleiri þjónustuaðila um aðkomu þeirra að kerfi Gagnaveitunnar á næstu misserum.
Uppbygging Gagnaveitunnar á háhraðaneti í dreifbýli stendur einnig yfir og hafa viðtökur verið góðar við tengingum á því svæði sem núverandi athygli beinist að. Um er að ræða Viðvíkursveit, norðanverðan Akrahrepp og austanvert Hegranes, en á því svæði eru um 30 bæir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.