Gamlársdagshlaup þreytt að venju á Sauðárkróki
Hið árlega Gamlársdagshlaup verður þreytt á Sauðárkróki, eins og nafnið gefur til kynna á Gamlársdag. Fólk velur sér þá vegalengd sem það vill leggja undir iljar og getur farið hana hlaupandi, gangandi, hjólandi eða með öðrum hætti svo framarlega að það krefjist hreyfingar viðkomandi.
Að sögn Árna Stefánssonar íþróttakennara hefst skráning klukkan 12:30 og stendur fram að hlaupi sem hefst klukkan 13:00. Ekki er krafist þátttökugjalds en að loknu hlaupi verður boðið upp á drykk og veitt útdráttarverðlaun. Árni segir að fyrir ári hafi um 250 manns tekið þátt, fólk á öllum aldri frá kerrubörnum og upp í fólk á áttræðisaldri.
-Allir að mæta með bros á vör, segir Árni og Feykir tekur undir það.