Garðbæingar unnu sanngjarnan sigur

Jónas Aron með boltann í leiknum í gær. MYND: ÓAB
Jónas Aron með boltann í leiknum í gær. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls og KFG mættust á Sauðárkróksvelli í gærkvöldi. Reiknað var með hörkuleik en þegar til kom þá voru gestirnir einfaldlega sterkari og lið Tindastóls náði í raun aldrei neinum takti í leik sinn. Stólarnir voru þó yfir í hálfleik, 1-0, en Garðbæingar gerðu þrjú mörk með góðum varnarafslætti áður en yfir lauk og héldu því suður með stigin þrjú. Lokatölur 1-3.

Aðstæður voru ágætar á grasvellinum á Króknum, smá norðangola en kannski pínu kalt þegar á leið. Stólarnir urðu fyrir áfalli strax á 3. mínútu þegar Benni fyrirliði varð að fara af velli meiddur og munar um minna. Eftir um 15 mínútna leik fengu gestirnir vítaspyrnu eftir að Atli Dagur, markvörður Stólanna, gerðist brotlegur. Hann gerði sér lítið fyrir og varði vítið glæsilega. Gestirnir héldu áfram að sækja gegn norðangolunni en leikmönnum Tindastóls gekk óskaplega illa að spila boltanum fram á vallarhelming KFG, spilamennskan ómarkviss og gestirnir unnu boltann hvað eftir annað eftir ónákvæmar sendingar út úr vörn Stólanna. Það varð Tindastólsmönnum til happs að sóknarmenn gestanna voru vel gráðugir og voru spilaðir rangstæðir ítrekað. Þá vörðust Stólarnir af kappi og björguðu sér fyrir horn hvað eftir annað. Halldór Broddi fékk ágætt færi á fjærstöng til að koma Stólunum yfir eftir um 30 mínútna leik og eftir það komust Stólarnir aðeins betur inn í leikinn en það var þó því þvert gegn gangi leiksins að Stólarnir náðu forystunni. Addi Ólafs, sem kom inn fyrir Benna, fékk þá góðan tíma fyrir framan vítateig gestanna og dúndraði í hægra hornið hjá reynslulausum markverði gestanna þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fyrri hálfleiks.

Það tók gestina aðeins tvær mínútur að jafna leikinn í síðari hálfleik en þá var boltanum spilað heldur auðveldlega inn fyrir vörn Tindastóls og Jóhann Ólafur lyfti yfir Atla Dag sem kom út á móti honum. Næstu mínútur voru leikmenn Tindastóls sprækir og ógnuðu liði KFG, skoruðu ágætt mark sem dæmt var af vegna rangstæðu. Á 66. mínútu átti markvörður gestanna útspark sem varnarlína Stólanna misreiknaði, Kristján Gabríel slapp inn fyrir og skoraði af öryggi. Stólrnir voru meira með boltann það sem eftir lifði en sem fyrr voru fyrirgjafir slakar og illa gekk að skapa færi. Luke Rae átti þó nokkra ágæta spretti og var ógandi en allt kom fyrir ekki. Það var síðan Bó sem kórónaði sigur KFG á 90. mínútu eftir góðan undirbúning samherja síns sem stóð af sér 2-3 þreytulegar tæklingar Tindastólsmanna áður en hann renndi boltanum á Bó.

Svekkjandi tap því staðreynd en fjórir leikmenn gestanna voru í sóttkví og því ekki með og þar fyrir utan voru þeir ekki með markmann í markinu – hvorugur markvarða liðsins gat spilað og því útileikmanninum Atla Jónassyni skellt í markið. Hann stóð fyrir sínu þó ljóst sé að betri markverðir hafi skutlað sér á Sauðárkróksvelli. Luke Rae og Tanner Sica áttu ágætan leik fyrir lið Tindastóls og þá stóð Atli Dagur sig með ágætum í markinu. Næsti leikur Tindastóls er við lið Álftaness á Bessastaðavelli nú á miðvikudagskvöldið. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir