Garnaveiki staðfest á bæ í Húnavatnshreppi
Garnaveiki var staðfest á bænum Reykjum í Húnavatnshreppi skömmu fyrir jól. Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram að sjúkdómurinn hefur greinst í sauðfé á tveimur öðrum bæjum í Húna- og Skagahólfi síðastliðin tíu ár. Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur í jórturdýrum en hægt er að verja sauðfé og geitur fyrir sjúkdómnum með bólusetningu og halda smitálagi í lágmarki. Á bæjum þeim sem garnaveiki greinist á gilda ýmsar takmarkanir sem lúta að því að hindra smitdreifingu.
Í tilkynningu Matvælastofnunar segir að tilfellið hafi uppgötvast eftir að bóndi, í samráði við dýralækni, lét héraðsdýralækni Matvælastofnunar vita. Kindin, sem var rúmlega 5 vetra, sýndi einkenni sjúkdómsins og var aflífuð. Sýni voru tekin og send til greiningar á Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum. Reyndust þau jákvæð með tilliti til garnaveiki. Einnig voru sýni tekin til rannsóknar á riðuveiki en þau voru neikvæð.
Ennfremur segir um garnaveiki á vef Matvælastofnunar: „Orsök sjúkdómsins er lífseig baktería af berklaflokki (Mycobacterium paratuberculosis). Helstu einkenni hennar eru hægfara vanþrif, stundum með skituköstum. Í þeim hjörðum sem veikin kemur upp getur einnig verið þó nokkuð um „heilbrigða smitbera“ þ.e.a.s kindur sem hafa tekið smit en sýna ekki enn einkenni og eru þó að skilja út mikið af smitefninu. Meðgöngutími í sauðfé og geitum er 1-2 ár eða lengri. Garnaveikibakterían veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saurnum og geta lifað í 1- 1 ½ ár í óhreinindum og pollum umhverfis gripahús, við afréttargirðingar, í sláturúrgangi og í líffærum skepna sem drepast út um haga. Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni.“
Matvælastofnun minnir á mikilvægi þess að ásetningslömb séu bólusett svo fljótt sem auðið er, sem og aðkeypt lömb. Lömbin eru alveg óvarin þar til þau fá bólusetninguna og geta þau því smitast í millitíðinni, sé smitálag í umhverfinu mikið.
Sjá nánar á vef MAST.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.