Geldur og engar rjúpur :: Áskorandapenninn Auður Þórhallsdóttir Hvammstanga

Fyrir nokkrum árum síðan fór maðurinn minn með hundinn okkar í geldingu. Ekki af því að hann væri svo hrifinn af þeirri hugmynd en sú ákvörðun hafði verið tekin vegna þess að seppi gat ekki hætt að gelta. Reynslumikill hundaeigandi hafði ráðlagt okkur að láta vana dýrið, klippa kúlurnar eins og hnípinn heimilisfaðirinn orðaði það þegar hann var sendur af stað með hundinn til dýralæknis.

Ég hef lesið að það sé ekki óalgengt með karlkyns hundaeigendur að þeir taki geldingu rakka sinna nærri sér. Þeir yfirfæra eigin tilfinningar á dýrið og upplifa sem það sé verið að taka af þeim allar lífsins lystisemdir, unað ástarlífsins. Þessi tilfinningasemi karlmanna á þó víst einungis við um geldingu karlkyns gæludýra. Þeim virðist vera nokkuð sama þó læða sé til dæmis tekin úr sambandi. Ég hef þessar staðreyndir allar af vefsíðum dýralækna svo ég veit að þetta á alls ekki bara við um manninn minn.

Aðgerðin tókst vel en dýralæknirinn varaði okkur þó við því að matalyst voffa gæti aukist eftir kúlumissinn. Við tókum fljótt eftir því að hann gelti minna, sem var jú það sem við höfðum vonast eftir en það var sem röri verið stungið í rassinn á honum og hann blásinn upp eins og blaðra. Svo hratt gerðist það að hann spik fitnaði. Löngunin til að gelta og tjá tilfinningar sínar höfðu dofnað en nú leitaði hann hamingjunnar í mat. Maðurinn minn tók þetta mjög nærri sér.

Það er stundum talað um að hundar líkist eigindum sínum og ég er ekki frá því að það eigi oft við. Ég væri svo sem ekkert endilega að segja að rakkinn líktist elskunni minni, en augljóslega finnst manninum mínum það sjálfum því það má aldrei tala um aukakíló hundsins svo hann heyri til. Slíkt hljómar eins og persónuleg árás í hans eyrum og hann er fljótur að svara fyrir dýrið að hann sé alls ekki feitur heldur stórbeinóttur, það sé í genunum. Það fer svo fyrst að hljómar undarlega þegar tengdamamma tekur í sama streng, sem virðist taka þetta líkamlega ástand hundsins ekki síður nærri sér en sonurinn.

Ástin mín hefur áhyggjur af því að hann sé sjálfur að fitna. Þetta segir hann stundum og horfir áhyggjufullur á sig í spegli. Ég held reyndar að hann sé alls ekki að fitna og innst inni viti hann það en þar sem hann sér sig í hundinum skil ég áhyggjurnar. Það sem ég hafði hinsvegar meiri áhyggjur af var að eftir að hundurinn var geltur var eins og maðurinn minn hefði misst alla löngun til að fara á veiðar. Hann sem hafði áður elskað að fara á fjöll og koma skeggjaður og skítugur til baka, með kippu af dauðum fuglum. Það var eins og það hefði verið klippt á þetta frumstæða eðli og það í beinu framhaldi af ferðinni til dýralæknisins. Ég hlaut að spyrja mig þeirrar spurningar hvort gelding hundsins hefði haft þessi áhrif á eiginmanninn? Samt höfðu veiðiferðirnar í raun ekkert með hundinn að gera, hann var vonlaus veiðihundur og hafði því iðulega verið skilinn eftir heima.

Ég hef sætt mig við að við eldum eitthvað annað en rjúpur um jólin en er viss um að ég hugsa mig tvisvar um áður en við látum gelda fleiri gæludýr.
Ég skora á systur mína, Birtu Þórhallsdóttur að vera næsti áskorendapenni.

Áður birst í 14. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir