Glæsileg útskrift á Hofsósi

Glaðbeittir útskriftarnemar á Hofsósi

Skólaslit í Grunnmenntaskólanum á Hofsósi voru sl. fimmtudag. Lauk þar með 300 kest námi sem staðið hefur yfir í tvær annir. Námsmenn hafa sýnt ótrúlegan dugnað og  seiglu með þvi að mæta eftir vinnu þrisvar í viku í allan vetur frá kl. 18-22. Hópurinn var hins vegar afar samhentur og jákvæður og litu nemendur á þetta sem skemmtun jafnhliða námi og var óspart hrósað af öllum kennurunum fyrir frábæra frammistöðu.

 

 

 

Við skólaslitin sýndu nemendur hópverkefni sem þeir höfðu unnið með íslensku- og tölvukennurum sínum. Viðfangsefnin voru ólík: Sölvi Helgason, Íslenska ullin og Rúnni Júl. Síðan var boðið upp á tælenska máltíð og fluttu nemendur þá stórskemmtilegar tækifærisræður sem þeir höfðu samið í framsögn hjá Fríðu íslenskukennara. Voru ræðurnar samdar eins og nemendur væru að hittast eftir 10 ár og fjölluðu um það hvað hópurinn hafði afrekað á þessum 10 árum - sem allt byggðist að sjálfsögðu á því sem þau höfðu lært í Grunnmenntaskólanum á sínum tíma!

 

Námið í Grunnmenntaskólanum er metið til allt að 24ra eininga við framhaldsskóla og er fullur hugur í námsmönnum að halda áfram námi og lagt hart að Farskólanum að undirbúa framhaldsnám fyrir næsta haust.

 

/Farskólinn. Ásdís

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir