Gleðihelgi framundan

Mikið verður um að vera í og við reiðhöllina Svaðastaðir á Sauðárkróki um næstu helgi, laufskálaréttarhelgina. Dagskráin hefst á föstudaginn á félagssvæði hestamannafélagsins Léttfeta sem er við reiðhöllina kl: 16 á skeiðkappreiðum sem skeiðfélagið Kjarval sér um.

 

Keppt verður í 150m og 250m skeiði úr startbásum með rafrænni tímatöku. Strax á eftir kappreiðunum verður sölusýning á vegum Hrossaræktarsambands Skagfirðinga á sama velli, skráning er mjög góð á sölusýninguna og hrossakostur góður. Á föstudagskvöldið er sýning í reiðhöllinni sem hefst kl:20:30. Þar verða til sýnis glæsihross og gleði verður mikill, meðal atriða á sýningunni verður töltkeppni, stóðhestakeppni, skagfirskir gæðingar, æsispennandi skeiðkeppni, ræktunarbú skagafjarðar 2010, systkinin frá Sunnuhvoli og margt fleira. Eftir sýninguna verður boðið uppá skagfirska eðaltóna í anddyri reiðhallarinnar.

Á laugardagskvöldið verður síðan Laufskálaréttardansleikur í reiðhöllinni sem hefst kl:23:00. Óhætt er að segja að mikið verður lagt í ballið sem verður það allra flottasta sem haldið hefur verið. Hin magnaða skagfirska hljómsveit Von mun sjá um stuðið ásamt landsliði söngvara sem eru Matti Papi, Sigga Beinteins, Magni Ásgeirs, Jogvan og Vignir Snær. Forsala fyrir ballið á laugardagskvöldið og reiðhallarsýninguna á föstudagskvöldið er í N1 á Sauðárkróki.

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir