Gleðilega hvítasunnu

Niðurför heilags anda á handritalýsingu frá 15. öld. Mynd tekin af WikiPedia.
Niðurför heilags anda á handritalýsingu frá 15. öld. Mynd tekin af WikiPedia.

Hvítasunnudagur (áður fyrr stundum nefndur hvítdrottinsdagur, píkisdagur eða pikkisdagur) er hátíð í kirkjuári kristinnar kirkju. Hann er 49. dagurinn eftir páskadag og tíundi dagurinn eftir uppstigningardag. Á WikiPedia stendur að forngrískt heiti hans sé πεντηκοστή [ἡμέρα] (pentekostē [hēmera]) sem merkir fimmtugasti (dagur). Dagsins er minnst sem þess dags þegar heilagur andi kom yfir lærisveinana og aðra fylgjendur Jesú eins og lýst er í Postulasögunni.

„Þeir töluðu tungum -- það er mæltu þannig að hver og einn nærstaddur skildi þá líkt og þeir töluðu á hans móðurmáli, en þar voru menn af mörgum þjóðernum. 3000 manns létust skírast til kristni þann daginn. Þessi þrjú þúsund voru fyrsti kristni söfnuðurinn,“ segir á Vísindavefnum.

Þar kemur einnig fram að hvítasunnan sé auk páska og jóla ein af sameiginlegum höfuðhátíðum kristinnar kirkju og markaði upphaflega lok páskatímans sem stóð í 50 daga, en varð síðar að sjálfstæðum minningardegi um það sem kallað er úthelling heilags anda.

„Í 14. kapítula Jóhannesarguðspjalls segir frá því að Kristur, sem þá var upprisinn, hafi heitið lærisveinum sínum að þeim mundi gefast „annar hjálpari“ sem öfugt við hann sjálfan mundi vera hjá þeim að eilífu. Þessi „hjálpari“ var „andi sannleikans“ eða heilagur andi. Frá uppfyllingu þessa fyrirheitis er síðan skýrt í 2. kapítula Postulasögunnar, en þar segir að lærisveinahópurinn hafi verið saman kominn og hafi þá heyrst gnýr af himni eins og óveður væri í nánd, eldtungur hafi birst og sest á þá og þeir tekið að tala framandi tungumál sem þeir ekki kunnu. Töldu þeir sem vitni urðu að atburðinum að lærisveinarnir væru drukknir. Tákn andans var hinn hreinsandi eldur og tungutalið, en sumar kirkjudeildir, þar á meðal Hvítasunnumenn, leggja mikið upp úr því. Aðrar kirkjudeildir telja að andinn starfi með leyndari hætti í innsta hugskoti manns og komi þar trú og góðum verkum til leiðar.“

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir