Gluggað í skýrslur Víðidalsár

Ragnar Gunnlaugsson, kenndur við Bakka í Víðidal hefur tekið saman viðamiklar upplýsingar um Víðidalsá þar sem ýmislegt fróðlegt kemur í ljós. Alls veiddust 1.256 laxar sem telst fín veiði en það er meðalþyngdin sem vekur sérstaka athygli.

Á veiðivefnum votnogveidi.is er úttekt Ragnars birt og kemur þar fram að alls var 21 lax á bilinu 100 til 107 cm á lengd, en 100 cm er sem kunnugt er hið venjulega viðmið 20 pundarans, fari laxinn ekki á vigt, en flestir eða allir stórlaxar í Víðidalsá fóru lifandi út í aftur s.l. sumar og er það mikil breyting frá fyrri árum þó að stefnan hafi verið í þá átt jafnt og þétt.

Ef við skoðum þetta nánar, þá voru 3 laxar 107 cm, eða 12,1 kg, einn lax var 106 cm, eða 11,8 kg, 2 laxar voru 105 cm, eða 11,5 kg, 4 laxar voru 103 cm, eða 10,9 kg, 2 laxar voru 102 cm, eða 10,6 kg, 4 laxar voru 101 cm, eða 10,3 kg og 5 laxar voru sléttir 100 cm, eða 10 kg. Eflaust hafa margir þessara laxa verið heldur þyngri heldur en kvarðinn segir til um.

Meðalþunginn samkvæmt kvarða VMSt 4,4 kg, eða alveg við 9 pundin! Alls var 740 löxum sleppt af 1.256, sem er hæsta hlutfall í Víðidalsá sem þekkist.

Í samantekt Ragnars kemur einnig fram að sjóbleikja er í hörkusókneins og eftirfarandi tölur sýna. Tölur í svigum er samanburðartala frá síðasta ári: Á laxasvæðinu veiddust 619 (394) bleikjur og 28(64) urriðar. Alls 647 (458) silungar. Á silungasvæðinu, þar sem veitt er á aðeins tvær stangir í neðstu hyljum árinnar veiddust 1.099 (590) bleikjur og 97 (270) urriðar, eða samtals 1.196 (860) silungar.

Samanlagt af báðum svæðum gerir þetta 1.718 (984) bleikjur og 125 (334) urriðar, eða alls 1.843 (1.318) fiskar. Athygli vekur að bæði sækir bleikjan hressilega í sig veðrið og urriði lætur undan sverfast.  Veiðiskýrslur vantaði frá nokkrum af fyrstu veiðidögunum á silungasvæðinu og sagði Ragnar að silungsveiði væri alls ekki nógu vel skráð á laxasvæðinu. Hann segir líka á vötnogveiði.is að um helming urriðans vera sjógenginn og veiddist sá fiskur að mestu leyti í september og byrjun október.

Sjá nánar á Vötnogveiði.is

Fleiri fréttir