Góð aðsókn í sund í blíðunni

Mikill ferðamannastraumur hefur verið á Norðurlandi í blíðunni undanfarna daga og greinilegt er að sundlaugarnar freista margra enda fátt betra en að skella sér í sund og skola af sér ferðarykið og sóla sig aðeins í leiðinni.
Þorvaldur Gröndal, umsjónarmaður íþróttamannvirkja í Skagafirði segir sumarið hafa verið gott hvað aðsókn í sundlaugarnar varðar. Júnímánuður kom að vísu nokkuð verr út en í fyrra en gestafjöldinn í júlí virðist ætla að verða svipaður og í fyrra, sem þó var metár hvað aðsókn snerti. Þannig höfðu rúmlega 16 þúsund manns heimsótt sundlaugarnar þrjár á Sauðárkróki, Hofsósi og í Varmahlíð þann 25. júlí sl. en gestirnir voru tæplega 19 þúsund yfir allan júlímánuð í fyrra. Af þesssum laugum heimsækja langflestir sundlaugina á Hofsósi eða ríflega tíuþúsund gestir fyrstu 25 daga mánaðarins. Þá segir Þorvaldur að sundlaugin á Sólgörðum hafi komið sterk inn í ár og talsverður gestagangur verið þar.
Á Blönduósi er sömu sögu að segja, aðsóknin hefur verið mjög góð og hafa yfir 8.000 gestir heimsótt laugina frá 1. – 24. júlí en yfir sama tímabil árið á undan komu 6.616 gestir sem er um 20% aukning á milli ára.