Skíðagöngumót í Fljótum

Frá skíðagöngumóti á Lágheiði. Mynd: Hermann Hermannsson
Frá skíðagöngumóti á Lágheiði. Mynd: Hermann Hermannsson

Ferðafélag Fljótamanna stóð að venju fyrir gönguskíðamóti í Fljótum á föstudaginn langa. Mótið hefur vanalega verið haldið í kringum Ketilás en að þessu sinni var það ekki mögulegt sökum snjóleysis. Brugðu mótshaldarar því á það ráð að flytja mótið upp á Lágheiði þar sem nægan snjó var að finna en þar sem veginum þangað er ekki lengur haldið opnum urðu mótshaldarar að leggja í kostnað við snjómokstur. Til að koma í veg fyrir umferðaröngþveiti á mótsstað voru leigðar þrjár rútur með fjórhjóladrifi sem gengu á milli mótsstaðar og bílastæðis við Stíflurétt, auk þess sem hótelið á Deplum lagði til eina rútu til fólksflutninganna. Að sögn Halldórs Gunnars Hálfdanssonar á Molastöðum í Fljótum var það nánast kraftaverk að takast skyldi að halda mótið sé miðað við veðurfarið þessa páskana, afar blint var á Lágheiðinni en blessunarlega var alveg lygnt þá þrjá tíma sem mótið stóð yfir.Mynd: Hermann Hermannsson

Alls tóku 60 manns þátt í mótinu, keppt var í 20 km göngu í karla og kvennaflokki á aldrinum 16-34, 35-49, 50-59 og 60 ára og eldri. Í vegalengdunum 5 km og 10 km var keppt í karla og kvennaflokki 16 ára og eldri. Einnig var keppt í flokki drengja og stúlkna í vegalengdunum 5 km og 10 km á aldrinum 12-15 ára, 2,5 km fyrir 6-11 ára og 1 km fyrir 3-5 ára.
Skarphéðinn Jónsson bar sigur úr bítum í 10 km göngu karla, 16 ára og eldri, á tímanum 1:03:09. Í sama flokki kvenna sigraði Guðrún Pálsdóttir á tímanum 1:02.07. Í 5 km göngu karla, 16 ára og eldri, sigraði Viðar Pétursson á tímanum 0:26:22 og í kvennaflokki, 16 ára og eldri, sigraði Birgitta Birgisdóttir á tímanum 0:25:46. Nánar má lesa sér til um úrslit keppninnar og sjá fleiri myndir á Facebooksíðunni Skíðagöngumót í FljótumMynd: Halldór G. Hálfdansson.

Að vel heppnuðu móti loknu var boðið til kaffisamsætis á Ketilási þar sem borðin svignuðu undan krásunum að hætti Fljótamanna auk þess sem verðlaun voru veitt. Meðfylgjandi myndir tóku Hermann Hermannson og Halldór Gunnar Hálfdánsson.

Fleiri fréttir