Grettir áttræður
Síðastliðinn laugardag hélt Ungmennafélagið Grettir í Miðfirði uppá 80 ára afmæli félagsins.
Dagskráin hófst með fjölskylduskemmtun að deginum til þar sem ungir sem aldnir komu saman.
Sigurbjörg Jóhannesdóttir formaður félagsins hóf dagskrána með því að stikla á stóru um sögu félagsins.
Mátti þar heyra skemmtilegar frásagnir um starfsemi félagsins allt aftur að stofnun þess.
Ljósmyndir úr starfsemi leikfélagsins í gegnum árin voru sýndar sem og myndband sem Björn heitinn Einarsson frá Bessastöðum hafði tekið. Náði myndefni þess aftur til ársins 1974. Guðný Helga Björnsdóttir dóttir hans las síðan upp úr bók er Högni Þorsteinsson ömmubróðir hennar hafði ritað um starfsemi félagsins aðeins 13 ára gamall.
Boðið var uppá stóra afmælisköku sem bökuð var af nefnd ungmennafélagsins og kakó og kaffi með.
Spurningakeppni var síðan háð milli fyrrverandi formanna félagsins og að lokum haldið bingó.
Um kvöldið var leikfélagið með sýningu á leikritinu Jón og Hólmfríður. Var setið í öllum sætum og mikið hlegið.
Gaman er að geta þess að Jóhannes Björnsson var meðal leikara en er hann að nálgast 79 ára aldurinn.
Hljómsveitin Lexía ásamt Ragnari Levý enduðu síðan kvölddagskrána með dansleik þar sem dansað var frammá rauða nótt.
Stjórn ungmennafélagsins var mjög ánægð með daginn og vill þakka öllum þeim er sóttu afmælið kærlega fyrir komuna.
Hér fyrir neðan eru myndir frá uppfærslu Leikfélagsins á Jóni og Hólmfríði.