Gríðarlegt vantraust á starfsemi Hafrannsóknarstofnunar

Smábátafélagið Drangey í Skagafirði skorar enn einu sinni á stjórnvöld að virða ítrekaðar óskir sveitarstjórnar Skagafjarðar, Landssambands smábátaeigenda og Drangeyjar um taka upp fyrri takmarkanir á veiðum með dragnót á innanverðum Skagafirði þannig að þær verði óheimilar innan línu sem dregin er milli Ásnefs í vestri í norðurhorn Þórðarhöfða í austri. Er sú áskorun ein af mörgum sem félagið samþykkti á aðalfundi sínum sem fram fór í gær.

Þau vinnubrögð sem sjávarútvegsráðherra hafði við framkvæmd grásleppuveiða á þessu ári eru einnig fordæmd en með þeim var grásleppuútgerðum freklega mismunað og skemmdarverk unnið á stjórnkerfi þessara veiða að mati félagsins. Þá var stöðvun strandveiða þessa árs, áður en lögvörðu veiðitímabili þeirra lauk harðlega mótmælt og ítrekaði fundurinn fyrri samþykktir sínar um að veiðitímabil strandveiða verði valkvætt í fjóra mánuði samfellt alls 48 veiðidagar á tímabilinu 1. apríl til 30. september.

Aðalfundur Drangeyjar mótmælir þeim hugmyndum sem kynntar eru í nýju frumvarpi um atvinnu- og byggðakvóta um að festa strandveiðar inn í „heildarpotti“ sem tekur mið af aflamarkskerfinu. Með því er verið að þvinga sóknarmarksfyrirkomulag strandveiðanna inn í aflamarkskerfið.

Lýst var yfir ánægju með framgöngu atvinnuveganefndar sveitarstjórnar Skagafjarðar í tengslum við úthlutun byggðakvóta þessa árs. Hins vegar hvetur félagið til þess að í framtíðinni verði þessum heimildum einungis úthlutað á skip undir 50 lestum.

Aðalfundur Drangeyjar styður þær hugmyndir stjórnvalda að byggðakvóta til byggðarlaga skuli dreift á grundvelli meðaltals síðustu þriggja eða tíu ára eftir því hvort meðaltalið er hagstæðara fyrir viðkomandi byggðarlag. Hins vegar telur fundurinn að ekki séu rök fyrir því að miða úthlutunina við íbúafjölda byggðarlags.

Í lokin skorar félagið á stjórnvöld að beita sér fyrir því að hlutlaus úttekt verði gerð á ráðgjöf og rannsóknaraðferðum Hafrannsóknarstofnunar enda ríkir gríðarlegt vantraust sjómanna og útgerðarmanna innan félagsins á starfsemi stofnunarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir