Grindavíkurbátar landa á Króknum

Það er mikið um að vera á höfninni á Sauðárkróki þessa dagana en margir stærri bátar hafa landað afla sínum þar. Þrír bátar sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis í Grindavík munu landa afla sínum á Króknum fram að áramótum en þeir sækja miðin fyrir norðan land.
Á sunnudag var landað úr Fjölni GK 657, á mánudag Sighvati GK 57 og svo Kristínu GK 457 í gær. Auk þessara Vísisbáta var landað úr Klakki SK 5 á mánudag og Málmey SK 1 í dag.
Að sögn Halldórs Gestssonar, skipstjóra á Sighvati, hentar best að landa á Króknum og eru það nokkur atriði sem ráða m.a. að Skagafjörðurinn er miðsvæðis og góður staður upp á keyrslu líka. Það er flutningafyrirtækið Jón og Margeir sem sjá um fiskflutning landleiðina til Grindavíkur.