Grundfirðingar áhyggjufullir vegna lokunar rækjuvinnslu FISK Seafood
Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar lýsir þungum áhyggjum af lokun rækjuvinnslu FISK Seafood í Grundarfirði en þar var 19 starfsmönnum sagt upp störfum á dögunum en tveimur var boðin áframhaldandi vinna við frágang og undirbúning sölu og búnaðar. Á fundi ráðsins þann 19. júlí lýsti ráðið yfir vilja til góðs samstarfs við fyrirtækið og kallaði eftir mótvægisaðgerðum af hálfu þess til að lágmarka skaða samfélagsins vegna þessara aðgerða.
Eins og áður hefur komið fram var gripið til þess ráðs að loka rækjuvinnslunni í kjölfar langvarandi taprekstrar en veiðar og vinnsla rækju hafi átt erfitt uppdráttar hérlendis á undanförnum árum.
Í ályktun bæjarráðs segir að Fisk Seafood sé einn stærsti atvinnurekandi í Grundarfirði og beri sem slíkur mikla samfélagslega ábyrgð í Grundarfirði.
Í fréttum RÚV í dag er rætt við Jósef Ó. Kjartansson, forseta bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar, sem segir að fyrirtækið gæti lágmarkað skaðann fyrir samfélagið, til dæmis með því að nýta húsnæðið undir aðra starfsemi fyrirtækisins. Segir hann segir erfitt að gagnrýna að reksturinn gangi ekki en gagnrýni bæjarráðs snúi helst að samráðsleysi við bæjarstjórn áður en tilkynnt var um lokun vinnslunnar. Að sögn Jósefs eru allir starfsmennirnir sem sagt var upp búsettir í bænum og sé þetta því mikið högg fyrir atvinnulíf í Grundarfirði. Segir hann að aðstoðarframkvæmdastjóri FISK Seafood, Friðbjörn Ásbjörnsson, hafi setið fundinn en lítið lagt til málanna. Þá hafi engin svör um mótvægisaðgerðir fengist frá fyrirtækinu.
Sjá frétt á Feyki.is: Rækjuvinnslu Fisk Seafood í Grundarfirði lokað.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.