Grunnskólinn á Hofsósi tekur við vörslu Minningarsjóðs Rakelar Pálmadóttur

Frá Rakelarhátíð 2014.
Frá Rakelarhátíð 2014.

Minningarsjóður Rakelar Pálmadóttur hefur verið afhentur Grunnskólanum á Hofsósi til eignar og fullra umráða en hann var stofnaður og verið undir stjórn fjölskyldu hennar allt frá stofnun. Rakel var nemandi við skólann en lést af slysförum aðeins níu ára gömul árið 1988.

Á heimasíðu skólans má lesa að sjóðurinn hafi í gegnum tíðina staðið þétt við bakið á skólanum og gefið fjölmarga hluti til hans, bæði til félagsstarfa nemenda og eins tæki til notkunar í kennslu. Rakelarhátíðin, sem reglulega hefur verið haldin í Höfðaborg er fjáröflunarskemmtun fyrir sjóðinn.

„Sjóðinn afhendum við án allra kvaða og er stjórnendum Grunnskólans heimilt að ráðstafa honum eins og þeir telja að hann nýtist skólanum sem best. Við viljum færa starfsfólki Grunnskólans, nemendum og forráðamönnum þeirra sem og öllum þeim fjölmörgu sem styrkt hafa sjóðinn, innilegar þakkir fyrir ómetanlegan stuðning og hlýhug sem þeir hafa sýnt sjóðnum allt frá stofnun hans vorið 1989.

Það hefur glatt okkur foreldra og systkini Rakelar hvað sjóðurinn hefur náð að styrkja starf Grunnskólans á Hofsósi og það er einlæg von okkar að fallega brosið hennar Rakelar litlu fylgi skólastarfinu á Hofsósi um ókomin ár,“ segir í tilkynningu foreldra og systkina Rakelar sem birtist í auglýsingaritinu Sjónhorninu í síðustu viku. Foreldrar Rakelar eru þau Kristín Bryndís Óladóttir og Sigurður Pálmi Rögnvaldsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir