GSS kominn með nýjan hermi af gerð Trackman 4

Andri Þór Árnason og Guðmundur Ragnarsson prófa herminn. Mynd: KBH.
Andri Þór Árnason og Guðmundur Ragnarsson prófa herminn. Mynd: KBH.

Golfklúbbur Skagafjarðar festi nýlega kaup á golfhermi af fullkomnustu gerð. Sveitarfélagið Skagafjörður hjálpaði félaginu með myndarlegri afmælisgjöf á 50 ára afmæli GSS árið 2020. Hermirinn er kominn á sinn stað í inniaðstöðu GSS og félagsmenn þegar byrjaðir að spila. Formleg vígsla er áætluð þegar slakað verður á fjöldatakmörkunum.

Golfhermir af fullkomnustu gerð
Greiningartæki á borð við Trackman hafa rutt sér rúms með skjótum hætti á Íslandi. Kylfingar á öllum getustigum geta nýtt sér þessa nýju tækni til þess að auka færni sína í golfíþróttinni. Trackman er golfhermir af fullkomnustu gerð. Kylfingar geta spilað velli um allan heim. Hermirinn er það nákvæmur að lítill munur er á boltaflugi í hermi og raunheimum. Trackman notar radartækni til að reikna út upplýsingar um boltaflug og „hegðun“ golfkylfunnar í sveiflunni. Upplýsingarnar er hægt að lesa af snjallsíma, spjaldtölvu eða venjulegri tölvu.Trackman þykir fremst í flokki greiningartækja á markaðnum og nota margir af fremstu atvinnumönnum heims Trackman.

Hvaða upplýsingar skipta máli?
Trackman gefur upplýsingar um 28 mismunandi breytur hvað varðar boltaflug og sveifluna. Það er einstaklingsbundið hvaða upplýsingar skipta mestu máli, en þó má segja að boltaflugið sé það sem allir þurfa að hafa í huga, það er högglengd, stefna og sveigja og flugtakshornið. Þeir þættir sem hafa mest áhrif á þetta er staða kylfuhaussins þegar boltinn er hittur, ferill kylfunnar og sveifluhraðinn. Þannig að fyrir flesta nægir að skoða fjórar til sex breytur.

Bylting í æfingum
Tilkoma Trackman mun gerbreyta undirbúningstímabili hjá kylfingum GSS. Ekki síst hjá ungu kynslóðinni sem æfir inni á veturna. Ómetanlegt er að fá nákvæmar upplýsingar um boltaflugið og sveifluna. Æfingar verða mun markvissari, áhugaverðari og skemmtilegri heldur en að slá í net. Leikmenn fá meiri endurgjöf.

Félagslegt gildi
Félagar GSS hittast oft í inniaðstöðu á Borgarflöt á veturna. Stundum til að fá sér kaffi og spjalla, stundum til að taka hring á einhverjum af bestu völlum í heimi. Ef sveiflan er að stríða manni þá er að minnsta kosti alltaf gott veður í herminum.

Spennandi sumar framundan
Framundan er spennandi sumar hjá GSS. Meðal nýjunga verða styrktarmót sem haldin verða í samstarfi við UMF Tindastól. Nýliðanámskeiðið verður á sínum stað um mánaðamót maí-júní. Þess má geta að verðandi nýliðar fá sérstaka kynningu á nýja golfherminum.

/Kristján Bjarni Halldórsson
formaður GSS

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir