Guðmundur er orðinn leiður á að láta svindla á sér

Guðmundur sagði farir sínar ekki sléttar.
Guðmundur sagði farir sínar ekki sléttar.

„Já, þetta er Guðmundur hérna.“

„Guðmundur?“

„Já einmitt.“

„Hvaða Guðmundur?“

„Það skiptir ekki máli góði.“

„Get ég eitthvað aðstoðað þig Guðmundur?“

„Nei, ég reikna nú ekki með því, þið eruð náttúrulega aumingjar upp til hópa þarna fjölmiðlafólkið, vælandi alla daga og hvað kemur út úr því? Ekkert! Ekki nokkur skapaður hlutur.“

„Hvers vegna varstu þá að hringja?“

„Ég hringi nú, væni minn, út af svindlinu í þjóðfélaginu. Jaaááá. Svindlinu sjáðu.“

„Hvaða svindli?“

„Rólegur, ég skal segja þér undan og ofan af því, væni minn. Þannig eru nú mál með vexti að ég verslaði mér ferð til Lundúnaborgar með ferðaskrifstofu.“

„Hvaða ferðaskrifstofu?“

„Það skiptir ekki máli góði.“

„Jú, það skiptir máli Guðmundur.“

„Já, jájá, að sjálfsögðu skiptir það máli. Við skulum þá bara kall'ana Svindlferðir. Það er gott nafn já og oft hæfir skel... aaa... skiptir ekki máli, það sem ég ætlaði að segja hérna að þeir svindluðu á mér!“

„Höfðu þeir af þér pening?“

„Ekki beinlínis. Ekki beinlínis. En ég fór semsagt til Lundúna með þessum Svindlferðum og þar var nú ekki allt með felldu. Ég hringdi strax í þá og sagðist vilja fá endurgreitt en ég var nú bara beðinn um að láta renna af mér. Andskotans ósvífni í manninum...“

„Og varstu drukkinn?“

„Síður en svo væni minn. Ég var bara búinn með fjeeegur bjórglös og einn afréttara.“

„Það er nú eitthvað, en Guðmundur, í hverju lá svindlið?“

„Ég skal nú segja þér það væni minn. Ég var þarna staddur á Leister Skver og þar var einhver sýning. Einhver sköllóttur maður, nokkuð vel í holdum, var kallaður fram og sagður vera heimsmeistari í armbeygjum. Hann var sagður geta tekið 1000 armbeygjur á korteri. Það getur enginn tekið 1000 armbeygjur og hvað þá á korteri. Núnú, ég var spenntur að sjá þennan mann gera þetta þarna og fylgdist spennur með. Hann leggst þarna á magann á stéttina og þá segir kynnirinn... já, hvað heldurðu að kynnirinn hafi sagt þá?“

„Nú veit ég ekki.“

„Heyrðu, hann segir að þar sem fólk sé á hraðferð á þessum föstudegi, þetta var nefnilega á föstudegi, þá muni heimsmeistarinn í armbeyjum ekki tefja fyrir fólki og taki þess vegna bara síðustu tíu armbeygjurnar af þessum 1000! Fólk hló þarna í kringum mig eins og fábjánar en sjáðu til, það var bara verið að svindla á því!

„Heldurðu að þetta hafi ekki bara verið eitthvað grín Guðmundur?“

„Grín!? Maðurinn var í búning og öllu! Þetta var ekkert grín. Ég nenni ekki að taka þátt í svona þjóðfélagi þar sem er endalaust svindlað á manni. Ég held bara að ég skili auðu í kosningunum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir