Guðrún frá Lundi til Egilsstaða

Frá opnun sýningarinnar Kona á skjön á Egilsstöðum. Mynd: KSE.
Frá opnun sýningarinnar Kona á skjön á Egilsstöðum. Mynd: KSE.

Síðastliðinn sunnudag opnaði á Egilsstöðum sýningin Kona á skjön sem segir frá rithöfundarferli Guðrúnar frá Lundi sem fullyrða má að sé sannkallað ævintýri í íslenskri bókmenntasögu. Sýningin hefur farið víða en áður hefur hún verið sett upp á Sauðárkróki, Borgarbókasafni í Grófinni, Bókasafni Akraness og Amtsbókasafni á Akureyri.

Kristín Sigurrós Einarsdóttir, annars aðstandenda sýningarinnar, segir enga þá staði þar sem sýningin hefur staðið uppi, utan Sauðárkróks, tengist Guðrúnu þar sem hún ól allan sinn aldur í Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu. „Þetta flakk með sýninguna er tilkomið af því að þessir staðir óskuðu eftir að fá hana til sín. Þannig má segja að Guðrún sé orðin víðförulli í gegnum sýninguna en hún var í lifanda lífi,“ segir Kristín.

Kona á skjön verður á Egilsstöðum fram í desember en fer eftir það til Keflavikur og verður opnuð gestum þar í janúar.

„Við vonum svo að með tíð og tíma fái sýningin sinn fasta samastað í Skagafirði en aðsóknin hefur verið góð og sýnir að það er vel grundvöllur fyrir því að sýningin verði varanleg,“ segir Kristín sem vill, ásamt meðsýningarhöfundi sínum Marín Guðrúnu Hrafnsdóttur, koma þakklæti til þeirra sem styrktu sýninguna eða hafa aðstoðað þær á einn eða annan hátt.

Fleiri fréttir