Gullregn á fjölunum í lok mars

Hluti af galvöskum hópi þeirra félaga í Leikfélagi Hofsóss sem að sýningunni koma ásamt leikstjóra. Mynd: Rakel Árna.
Hluti af galvöskum hópi þeirra félaga í Leikfélagi Hofsóss sem að sýningunni koma ásamt leikstjóra. Mynd: Rakel Árna.

Æfingar standa nú yfir hjá Leikfélagi Hofsóss á leikritinu Gullregni eftir Ragnar Bragason og er áætlað að frumsýna í lok mars. Leikritið segir frá Indíönu Jónsdóttur sem býr í blokk í Breiðholtinu og er umkringd fólki af erlendum uppruna sem hún fyrirlítur. Indíana er svokallaður kerfisfræðingur, hún lifir á bótum frá hinu opinbera þótt hún sé fullkomlega heilbrigð. Stolt Indíönu er planta, fjallagullregn, sem hún hefur ræktað og sinnt af alúð.

Það er óhætt að segja að líf Indíönu umturnist þegar hún fær tilkynningu um að uppræta skuli allar gróðurtegundir sem ekki voru til staðar á Íslandi fyrir árið 1900 en gullregnið hennar fellur þar undir. Ekki bætir heldur úr skák að sonur hennar, sem hún hefur ofverndað alla tíð, hefur tekið ákvörðun um að fara að lifa sínu eigin lífi.

Persónur í leikritinu eru átta talsins og eru leiknar af bæði gamalreyndum sem nýinnvígðari leikurum félagsins. Leikstjórn er í höndum Ólafs Jens Sigurðssonar sem hefur sett upp margar sýningar með hinum ýmsu leikfélögum landsins, m.a. setti hann upp leikritið Þrek og tár með Freyvangsleikhúsinu á síðasta ári og Dagbókin hans Dadda með Leikfélagi Blönduóss árið 2014.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir