Gunnar Bragi vill efla kvikmyndagerð

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar á Alþingi um eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar með því að fela mennta- og menningarmálaráðherra að endurnýja samkomulag um eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar.

Fram kemur í tilkynningu frá flutningsmönnum að haustið 2006 undirrituðu þáverandi ráðherrar menntamála og fjármála og fulltrúar kvikmyndagerðarmanna samkomulag um stuðning við innlenda kvikmyndagerð. Átti samkomulagið að ná til fjögurra ára, 2007–2010. Þegar samkomulag þetta var gert álitu kvikmyndagerðarmenn að samkomulagið markaði tímamót í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar þar sem búið var að tryggja fjármagn fram í tímann. Augljóst má vera að fyrir þessa atvinnugrein eins og aðrar skiptir miklu að ekki ríki óvissa um fjármögnun enda kemur fram í samkomulaginu að stefnt sé á að ekki færri en fjórar kvikmyndir í fullri lengd verði gerðar á ári.

Samkvæmt samkomulaginu var gert ráð fyrir að fjárframlag ríkisins yrði 700 millj. kr. árið 2010 en í fjárlögum ársins var framlagið skorið niður í 450 millj. kr., eða um 35%. Á fjárlögum ársins 2011 er fjárframlag ríkisins einnig 450 milj. kr. Ljóst má vera að svo mikill niðurskurður getur haft víðtæk áhrif á greinina. 30. apríl 2010 komu á fund iðnaðarnefndar fulltrúar kvikmyndaframleiðenda og upplýstu m.a. nefndarmenn um að þá þegar hefði þessi niðurskurður haft neikvæð áhrif á greinina. Þá var nefndinni kynnt könnun er gerð var á fjármögnun 112 íslenskra kvikmyndaverka árin 2006–2009.

Flutningsmenn telja mikilvægt að óvissu um fjármögnun Kvikmyndasjóðs verði eytt og horft til þess hversu mikilvægur kvikmyndaiðnaðurinn er þjóðinni sem tekjuöflun, í atvinnusköpun, fyrir menningu og þjóðtungu og sem auglýsing fyrir íslenska náttúru og ferðaþjónustu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir