Gvendardagur á Hólum á sunnudag
Næstkomandi sunnudag, 24. mars, verður dagur Guðmundar góða haldinn hátíðlegur í Auðunarstofu á Hólum í Hjaltadal. Margaret Cormack flytur erindi sem hún nefnir 14. aldar sögur um Guðmund góða. Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku en Margaret starfar á Árnastofnun og hefur fengist við rannsóknir á trú á dýrlingum á Íslandi og örnefnum tengdum kirkjum og dýrlingum. Kaffiveitingar. Allir velkomnir. Dagskrá hefst klukkan 17:00 og er aðgangur ókeypis.
Guðmundur Arason hinn góði fæddist á Grjótá í Hörgárdal 1161 en lést á Hólum í Hjaltadal 16. mars 1237 og var biskup á Hólum (1203 - 1237). Á WikiPedia segir að hann hafi fengið fljótt orð á sig fyrir góðmennsku og þótti hafa til að bera mikla mildi og mýkt. Hlaut hann því viðurnefnið „góði“ sem merkir helgur maður og töldu sumir að í nálægð hans gætu gerst kraftaverk. Hann varð fljótt umdeildur biskup og átti alla sína biskupstíð í deilum við volduga höfðingja.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.