Hænsnakofinn hlutskarpastur
Á dögunum tóku tveir drengir í Grunnskólanum austan Vatna, þeir Egill Rúnar Halldórsson á Molastöðum og Ólafur Ísar Jóhannesson á Brúnastöðum, á móti verðlaunum fyrir verkefni sem þeir unnu í vetur. Var það hluti af vinnu skólans í verkefninu Landsbyggðarvinir en fyrr í vetur fengu tvær stúlkur í skólanum verðlaun frá sömu aðilum.
Verkefni Egils og Ólafs fólst í því að þeir smíðuðu hænsnakofa með tveimur rýmum og varpkassa. Er annað rýmið hugsað sem innisvæði, einangrað með hitaperu, og hitt sem útisvæði þar sem hænurnar gætu vappað um innan girðingar. Verkefnið tók mið af því að auka endurnýtingu við skólann en ætlunin er íbúar kofans nærist á lífrænum úrgangi sem til fellur í heimilisfræðikennslu og í mötuneyti skólans en skili í staðinn eggjum til heimilsifræðikennslunnar. Á skólatíma er reiknað með að nemendur skólans beri ábyrgð á umhirðu skepnanna en í lengri fríum er ætlunin að semja við vini og velunnara um að taka þær í fóstur.
Verðlaunin voru afhent í Norræna húsinu á mánudaginn. Hlaut hænsnakofinn 1. verðlaun og 100.000 kr að launum í verkefninu fyrir bestu hugmyndina og lausnir að betri framtíð í heimabyggð. Yfirskrift verkefnisins er Framtíðin er núna, og er leiðarstef þess sköpunargleði - heimabyggðin mín - nýsköpun - heilbrigði og forvarnir.