Hætta á að mjaltaþjónar bænda verði óstarfhæfir
Fóðurblandan h.f og DeLaval A/S hafa undirritað viljayfirlýsingu um að Fóðurblandan taki yfir sölu og þjónustu á vörum DeLaval á Íslandi.
Bbl.is segir að farið er að bera á skorti á varahlutum og rekstrarvörum í DeLaval mjaltakerfi og segja þjónustuaðilar að raunverulega hætta sé á að mjaltaþjónar bænda verði óstarfhæfir ef upp koma í þeim bilanir.
Vélaver, umboðsaðili DeLaval á Íslandi, lagði fram beiðni um gjaldþrotaskipti 17. ágúst síðastliðinn og er svo komið að skortur er orðinn á DeLaval vörum í landinu. Tilkynning barst frá DeLaval í byrjun þessa mánaðar um að fyrirtækið hefði leitað til Fóðurblöndunnar um samstarf vegna sölu og þjónustu á DeLaval búnaði á Íslandi og þar sem samningar hafa tekist milli fyrirtækjanna má búast við að varahlutir fari að berast til landsins svo ekki þurfi að handmjólka ef mjaltaþjónar bila hjá bændum.