Hallgerður skrifar undir hjá Stólastúlkum

Hallgerður í leik með Stólastúlkum síðasta sumar. MYND: ÓAB
Hallgerður í leik með Stólastúlkum síðasta sumar. MYND: ÓAB

Samkvæmt heimildum Feykis hefur Hallgerður Kristjánsdóttir skrifað undir samning við knattspyrnudeild Tindastóls og mun spila með Stólastúlkum í Pepsi Max í sumar. Hallgerður er uppalin í Val en eins og stuðningsmenn Tindastóls muna þá kom hún að láni á Krókinn síðasta sumar og spilaði með liði Tindastóls fram í júlí en þá skaust hún í skóla til Hawaí – fór semsagt af einum hitabeltisstaðnum í annan!

Hallgerður, sem er fædd árið 2001, spilaði við hlið Bryndísar Rutar fyrirliða í vörninni og mynduðu þær sterkt miðvarðapar saman. Að sögn Óskars Smára í þjálfarateymi Tindastóls var Hallgerður ekki með samning hjá Val og var því stokkið á að semja við hana en hún kemur þó ekki til liðs við stelpurnar fyrr en að fyrsta leik loknum. Sannarlega góðar fréttir en Óskar segir að enn sé verið að skoða leikmannamarkaðinn og fastlega er reiknað með að liðið verði styrkt enn frekar fyrir átökin í sumar.

Jamaíska landsliðskonan Dominque Bond-Flasza (Dom) er mætt á klakann en hún er í sottkví í Reykjavík á hótelinu umtalaða. Hún kemur væntanlega á Krókinn nú á sunnudag og missir því af æfingaleik gegn liði Gróttu sem fram fer hér á KS-vellinum á morgun, laugardag, en leikurinn hefst kl. 15:00. Reiknað er með að liðið spili tvo æfingaleiki til viðbótar áður en alvaran tekur við í byrjun maí en Tindastóll mætir Þrótti Reykjavík í fyrsta leik sínum í Pepsi Max deildinni þann 5. maí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir