Haraldur Birgisson ráðinn í nýtt starf hjá Fisk Seafood

Haraldur Birgisson. Myndir teknar af fisk.is
Haraldur Birgisson. Myndir teknar af fisk.is

Haraldur Birgisson hefur verið á sjónum fyrir Fisk seafood í meira en þrjátíu ár en hefur nú verið kallaður í land í nýtt starf. Var hann mjög farsæll bátsmaður á togaranum Málmey SK 1 þar sem hann sá um að allt væri á sínum stað og í standi á dekkinu. Það verður einnig eitt af hans verkefnum í landi eins og á sjónum því mikil tiltekt og hreinsun hefur átt sér stað við og í húsakynnum starfseminnar á Króknum ásamt Hofsósi og Skagaströnd.

Á heimsíðu Fisk segir að Haraldur sé í senn fullur tilhlökkunar og í svolitlum trega. „Það er auðvitað stórt skref að koma í land eftir öll þessi ár. Á móti kemur að það er virkilega gaman að taka við svona snyrtilegu athafnasvæði og bera ábyrgð á því að það drabbist ekki niður. Vonandi verður þetta átak FISK öðrum í bænum, og ekki síst sveitarfélaginu sjálfu, hvatning til þess að bretta líka upp ermarnar. Ef heimþráin til sjómennskunnar verður óbærileg get ég samt vonandi söðlað um aftur þegar búið er að koma þessari viðhaldsvinnu í farveg. Mér þykir vænt um traustið og er staðráðinn í að gera þetta vel,“ segir Haraldur. 

Það fer ekki framhjá neinum sem keyrir út á eyrina á Króknum að þar er búið að láta hendur standa fram úr ermum því mikil tiltekt hefur verið í gangi. Tugir tonna af alls konar uppsöfnuðum dóti hefur verið fjarlægt í um 100 gámum. Þá fengu húsakynnin einnig andlitslyftingu bæði að innan og utan og fékk guli liturinn að fjúka fyrir þeim hvíta, var það gert til að samsvara húsin við skipaflota fyrirtækisins.

   

Það verður því mikið verk fyrir Harald að halda öllum svæðunum í því formi sem það er komið í í dag og óskar Feykir.is honum velfarnaðar í nýja starfinu. 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir