Hárið í Þjóðleikhúsinu í kvöld og annað kvöld

Úr Söngleiknum Hárinu. Mynd: Hulda Signý Jóhannesdóttir.
Úr Söngleiknum Hárinu. Mynd: Hulda Signý Jóhannesdóttir.

Leikflokkur Húnaþings vestra sýnir söngleikinn Hárið eftir Gerome Ragni og James Rado í Þjóðleikhúsinu í kvöld, föstudag 14. júní, og annað kvöld, laugardag 15. júní, og verða báðar sýningarnar klukkan 19:30. Sýningin var valin Athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2018-2019 af dómnefnd Þjóðleikhússins og venju samkvæmt er þeirri sýningu boðið til uppsetningar á Stóra sviði Þjóðleikhússins.  

Söngleikurinn Hárið var sýnt á Hvammstanga í apríl sl. og hlaut frábærar viðtökur en uppselt var á allar sýningar. Tæplega 40 manns koma að sýningunni og þar af koma 26 manns fram í henni. Leikstjóri er Sigurður Líndal Þórisson sem á að baki 20 ára starfsferil í leikhúslífinu í London.

Leikflokkur Húnaþings vestra var valinn úr stórum hópi umsækjenda um Athyglisverðustu áhugaleiksýninu ársins en alls sóttu fimmtán leikfélög um með sautján sýningar. Önnur sýning leikflokksins, Snædrottningin, kom einnig sterklega til greina við valið og segir í umsögn dómnefndar að það hafi vakið sérstaka athygli hve öflug starfsemi leikflokksins sé í ár.

Í umsögn dómnefndar kemur fram að sýningin sé unnin af miklum metnaði og að hvergi sé slegið af kröfum við uppfærsluna. „Leikmynd, búningar og leikgervi, dansar, tónlistarflutningur, lýsing og hljóðblöndun skapa saman sterka heild. Stór leikhópurinn er skipaður hæfileikafólki sem nýtur sín í botn, og sterkur söngur, leikgleði og orka er allsráðandi. Afslappaður leikurinn skilar frásögninni á einlægan og einfaldan máta þannig að húmor og boðskapur verksins komast vel til skila,“ segir m.a. í umsögn dómnefndar Þjóðleikhússins.

Miðasala er á vef Þjóðleikhússins http://www.leikhusid.is/syningar/harid og á tix.ix https://tix.is/is/event/8136/hari-ahugasyning-arsins-2019/?fbclid=IwAR10ZKWBhbPwSuJhZUabeeQPV9fg2-rDuf7tbm4hka4qnzjLW7BnqPvhdO8

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir