Háskólinn á Hólum fær styrk úr Innviðasjóði

Háskólinn á Hólum. Mynd:FE
Háskólinn á Hólum. Mynd:FE

Nýlega birti stjórn Innviðasjóðs lista yfir þá aðila sem hlutu styrk frá sjóðnum árið 2018. Einn af styrkjum sjóðsins kemur í hlut Háskólans á Hólum, vegna verkefnis á vegum Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar. Frá þessu er sagt á heimasíðu skólans.

„Forsvarsmaður verkefnisins er Camille Leblanc lektor og  helstu samstarfsmenn þeir Stefán Óli Steingrímsson prófessor og David Ben Haim dósent. Sótt var um styrk til uppbyggingar aðstöðu til rannsókna á atferli fiska. Um árabil hafa atferlisrannsóknir verið einn af hornsteinum rannsóknarstarfsemi deildarinnar, og hafa þær rannsóknir að mestu verið framkvæmdar úti í náttúrunni. Styrkur þessi gerir skólanum kleift að byggja upp fullkoma aðstöðu til vandaðra atferlisrannsókna, í Verinu á Sauðárkróki," segir í frétt á heimasíðu skólans

Að þessu sinni hlutu 27 verkefni styrk frá sjóðnum upp á samtals rúmar 295 milljónir króna. Hlutur Háskólans á Hólum hljóðaði upp á rúmar fjórar milljónir króna. 

Innviðasjóður hefur það hlutverk að byggja upp rannsóknainnviði á Íslandi og er markmiðið með honum að efla innlendar vísindarannsóknir með því að skapa nýja möguleika til rannsókna með fjármögnun tækjabúnaðar/aðstöðu sem ekki er aðgengileg nú þegar, segir á heimasíðu Rannís sem sjóðurinn heyrir undir. Sjóðurinn veitir styrki til kaupa á tækjum, gagnagrunnum og hugbúnaði og öðrum þeim búnaði sem telst mikilvægur fyrir framfarir í rannsóknum og getur starfsfólk háskóla, opinberra rannsóknastofnana og fyrirtækja sótt um styrki úr honum.

Nánar má lesa um úthlutanir úr Innviðasjóði á vef Rannís

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir