Haustþing leikskólastarfsmanna á Norðurlandi vestra

MYND SIGRÍÐUR AADNEGARD
MYND SIGRÍÐUR AADNEGARD
Haustþing starfsfólks leikskóla á Norðurlandi vestra var haldið á Blönduósi þann 29. ágúst síðastliðinn. Þingið er haldið annað hvert ár og nú var komið að leikskólastjórum leikskóla í Húnavatnssýslum að halda þingið með dyggri aðstoð Farskólans. Þingið sóttu alls um 116 starfsmenn leikskólanna.
 
Dagskráin hófst með kynningu á forvarnaráætlun Norðurlands vestra sem Dagný Rósa Úlfarsdóttir fræðslustjóri í Húnabyggð flutti.
Í kjölfarið hélt Bjartur Guðmundsson leikari og marþjálfi áhugavert erindi þar sem hann kenndi okkur aðferðir til að efla gleði, áhugahvöt og koma sér í „óstöðvandi topp tilfinningalegt ástand“ með það að markmiði að verða betri í því sem maður tekur sér fyrir hendur.
Eftir hádegishlé flutti Eyrún Kristína Gunnarsdóttir sálfræðingur erindi um tilfinningaþroska barna. Fjallaði hún meðal annars um hvernig mæta megi ólíkum þörfum eftir aldri barna með það að markmiði að styrkja sjálfsmynd þeirra og bæta líðan. Að erindi hennar loknu fjallaði Aníta Jónsdóttir, ráðgjafi við Háskólann á Akureyri, um jákvæðan aga og hvernig mætti innleiða slíkar aðferðir í leikskólastarfið. Jákvæður agi gengur út á að móta umhverfi sem einkennist af umhyggju og byggist á gagnkvæmri virðingu, reisn, vinsemd og festu.
 
Þinginu lauk með síðdegiskaffi þar sem þátttakendur áttu góða samverustund og ræddu um það sem þeir höfðu lært yfir daginn. Um allar veitingar á þinginu sá fyrirtækið Hafa gaman ehf.Þingið þótti einstaklega vel heppnað og gaf starfsfólki tækifæri til að efla fagþekkingu sína og styrkja tengsl við samstarfsfólk af öllu Norðurlandi vestra.
 
Fyrir hönd undirbúningsnefndar Sigríður B. Aadnegard.

Fleiri fréttir