Hefur alla tíð verið bókaormur

Bókaormurinn Magdalena Berglind. Aðsend mynd.
Bókaormurinn Magdalena Berglind. Aðsend mynd.

Magdalena Berglind Björnsdóttir, kennari við Blönduskóla, hefur mikið yndi af bóklestri. Hún svaraði spurningum í Feykis Bók-haldinu í 17. tbl. ársins 2018 og deildi því með okkur hvaða bækur höfða helst til hennar. Óhætt er að segja að þar sé farið yfir vítt svið enda segir hún húsið orðið yfirfullt af lesefni.

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn? 

Ég er bókaormur og hef verið alla tíð, finnst alveg dásamlega notalegt að sitja með góða bók og gleyma mér í dálitla stund – eða langa. Ég var svo heppin sem barn og unglingur að fá bækur reglulega að gjöf og eiga alltaf margar bækur. Núna hef ég það í raun að atvinnu að reyna að heilla börn og unglinga til mín í hóp bókaorma.
Ég hef þó ekki alltaf lesið mikið, til dæmis las ég afskaplega lítið af skáldsögum frá lokum grunnskóla til loka framhaldsnáms. Þá voru hinar ýmsu fræðibækur uppi við öllum stundum, til mismikillar ánægju eða yndisauka. Þegar börnin svo fæddust breyttust aðstæður aftur og þá voru alls kyns barnabækur um allt hús. Núorðið ræð ég lesefninu sjálf og það er afar ljúft. 

Hvers konar bækur lestu helst?

Ég hef undanfarin ár helst sótt í spennusögur eftir íslenska höfunda – Arnald og Yrsu og nú nýverið bækur Ragnars Jónassonar. Það er svo gaman þegar bækur gerast á kunnuglegum slóðum hér á Norðurlandi. Ég á þó nóg eftir á því sviðinu, t.d. Stefán Mána og Árna Þórarinsson svo einhverjir séu nefndir.  Mér þykja skrif rithöfundanna Vilborgar Davíðsdóttur og Brynhildar Þórarinsdóttur mjög skemmtileg. Þær hafa skrifað bækur sem hafa höfðað vel til mín, bæði fyrir börn og fullorðna, með sögulegri tengingu og svolitlu víkingaþema. Sérstaklega góð blanda. 

Það er gott fólk, miklir lestrarhestar, í kringum mig og reglulega fæ ég ábendingar um bækur sem ég verð að lesa. Sem dæmi um bækur sem ég hef fengið ábendingar um eru Dalalífsbækur Guðrúnar frá Lundi, sem voru afar skemmtilegar og svo Afdalabarn – sem fékk þá góðu umsögn hjá vinkonu að væri ég í leit að núvitundarstundum ætti ég að lesa þá bók. Nægjusemi og rólegheit fengu alveg nýja merkingu eftir þann lestur.   

Napolí-bækur Elenu Ferrante tóku talsverðan lestrartíma nú í vetur. Það voru ófáar stundir í jólafríinu sem ég varði (ekki „eyddi“) í lestur þeirra bóka – og er svo þakklát fyrir að hafa fæðst á Íslandi, þó svo draumalandið sé Ítalía. Eftir þær bækur var alveg nauðsynlegt að létta efnið og andann talsvert og er ég búin að lesa tvær bækur eftir Jenny Colgan síðan. Litla bókabúðin í hálöndunum og Litla bakaríið við Strandgötu voru báðar alveg yndislegar og stóðu undir þeim flottu dómum sem þær höfðu fengið hjá góðum vinkonum. Ég bíð spennt eftir fleiri bókum frá þeim stöllum í bókaútgáfunni Angústúru

Vinnu minnar vegna les ég alltaf að minnsta kosti eina Íslendingasögu á hverjum vetri. Hegg menn í herðar niður, reyni að útskýra fjölskyldutengsl og hverjir Þorbjörn, Þorgeir, Þorsteinn, Þorgrímur, Þóroddur – og allir hinir karlarnir sem báru nöfn sem byrjuðu á Þ-i, eru. Afar hressilegt lesefni í hvert sinn.  Svo les ég líka barna- og unglingabækur, ég verð jú að geta mælt með bókum við nemendur mína. Bækur Ævars vísindamanns varð ég til dæmis að lesa því ég gat alveg ómögulega skilið hvernig hægt væri að lesa bækur á annan hátt en frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu. Í stuttu máli sagt þá var alveg frábærlega skemmtilegt að velja framhald hvers kafla – og ef manni líkuðu ekki örlögin að bakka þá bara og velja eitthvað annað. Stórskemmtilegar bækur sem hafa fengið verðskuldaða athygli og hvatt marga lestrarhestana (og líka hina) til að lesa. 

Ljóðabækur eru líka alltaf nálægar þó svo ég lesi þær sjaldnast frá upphafi til enda. Keypti eina slíka nú nýverið af Blönduósingnum Haraldi Ægi Guðmundssyni. Bókin heitir Lífið bak við augun og í henni eru góð ljóð og sterk tenging við heimahagana. Náttúran spilar stóra rullu og eins og með bækur Ragnars þá fannst mér ljúft að þekkja til aðstæðna héðan þegar ég las ljóðin hans Halla. 

Hvaða bók/bækur eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana

Varðandi bækurnar á náttborðinu þá er bókin Sköpunarsögur eftir Pétur Blöndal búin að vera dágóða stund á náttborðinu hjá mér. Eiginmaðurinn þurfti að hafa talsvert fyrir því að finna hana fyrir ein jólin en hann hafði heyrt mig tala um að mig langaði að eignast þessa bók. Ég er búin að horfa lengi og djúpt í augu rithöfundanna á forsíðunni, búin að blaða í henni og lesa kafla og kafla – en enn hef ég ekki getað skrifað eins og þeir meistarar sem veittu viðtöl í bókinni góðu... En vonin lifir. 

Skilaboðaskjóðan var næstum því lesin í ræmur hér á árum áður. Stundum var óskað eftir því að byrja bara á kaflanum þar sem nátttröllið mætti, stundum var hins vegar alveg nauðsynlegt að hlaupa yfir þann kafla ef hjörtun voru eitthvað lítil þann daginn. Dásamlegt ævintýri og fjölskyldan fór meira að segja að sjá leikritið saman, í svo miklu uppáhaldið var sagan. Sama má segja um bækurnar um Benedikt Búálf, þær voru í miklu uppáhaldi hjá börnunum og auðvitað fórum við að sjá leikritið þegar það var sett upp. 

Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið? 

Núorðið kaupi ég helst ekki bækur fyrir sjálfa mig, bara börnin, enda húsið orðið yfirfullt. Heldur reyni ég að nota Héraðsbókasafnið á Blönduósi en þar er frábær þjónusta, svo ekki sé talað um hversu vel grunnskólanum er sinnt af starfsfólki bókasafnsins. Það er alltaf reiðubúið til að taka á móti okkur og opna safnið fyrir bekki eftir því hvenær best hentar – enda um að  gera að kynna þetta flotta safn fyrir ungu kynslóðinni  okkar. 

Áttu þér uppáhaldsbókabúð (hér heima eða erlendis)? 

Ég á ekki uppáhaldsbókabúð, finnst jafn gaman að spóka mig um og verja (ekki „eyða") tíma í bókabúðum. Ekki er verra ef þar er kaffihús líka og hægt að tylla sér. 

Stund með bókum allt um kring er ávísun á góða stund.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir