Heilbrigðistofnunin og Glaumbæjarkirkja lýstar bleikar
Í ár er Heilbrigðisstofnunin og Glaumbæjarkirkja lýstar bleikar á vegum Krabbameinsfélags Skagafjarðar. Þetta er hluti af alþjóðlegu átaki en októbermánuður er helgaður baráttunni gegn á brjóstakrabbameini og öðrum krabbameinum hjá konum.
Í október stendur Krabbameinsfélag Íslands fyrir sölu á bleikum slaufum og verður ágóðinn af þeirri sölu notaður til að styðja við baráttuna gegn krabbameini hjá konum. Markmiðið er að selja 50 þúsund slaufur. Slaufan kostar 1.500 krónur og er hönnuð af Ragnheiði I. Margeirsdóttur vöruhönnuði sem vann samkeppni Bleiku slaufunnar í ár. Innblástur er sóttur í þjóðleg klæði formæðra okkar, íslenska þjóðbúninginn og það sem honum fylgir. Í Skagafirði fæst hún hjá Lyfju á Sauðárkróki og Pósthúsinu.. Einnig er til sölu viðhafnarútgáfa úr silfri sem kostar 9.500 kr. Hún fæst hjá Leonard í Kringlunni, Smáralind og Leifsstöð.
Krabbameinsfélag Skagafjarðar hefur verið með margs konar starfsemi undanfarin ár, m.a. greitt leigu fyrir sjúklinga í íbúðum Krabbameinsfélags Íslands í Reykjavík og boðið upp á námskeið fyrir krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra. Dugur, félag krabbmeinsjúkra og aðstandenda þeirra hefur starfað undir verndarvæng Krabbameinsfélags Skagafjarðar. Starfsemi þess hefur verið lítil undanfarin ár en hefur nú verið endurvakin. Dugur verður með opið hús fyrsta miðvikudag í mánuði í Rauðakrosshúsinu. Krabbameinsfélag Skagafjarðar fjármagnar starfsemi sína aðalega með félagsgjöldum og sölu minningarkorta. Hægt er að gerast félagi með því að hafa samband við Maríu í síma 863 6039. Minningarkort félagsins fást í Blóma og Gjafabúðinni og á Heilbrigðisstofnuninni.
Heilsuboðorð Krabbameinsfélagsins
Hver og ein kona getur gert ýmislegt til að draga úr líkum á að fá krabbamein:
- 1. Reykjum ekki og forðumst reyk frá öðrum. Notum ekki munn- og neftóbak.
- 2. Hreyfum okkur að minnsta kosti í hálfa klukkustund á dag.
- 3. Borðum hollan og fjölbreyttan mat. Neytum grænmetis og ávaxta daglega.
- 4. Forðumst að vera of þungar.
- 5. Takmörkum neyslu áfengra drykkja.
- 6. Vörumst ljósabekki og óhófleg sólböð.
- 7. Öflum okkur upplýsinga um helstu einkenni krabbameina og bregðumst við þeim.
- 8. Forðumst langtímanotkun tíðahvarfahormóna. Verum vakandi fyrir krabbameinsvaldandi
- efnum í umhverfinu.
- 9. Þiggjum boð um að mæta reglulega í leghálsskoðun eftir tvítugt. Verjumst HPV-veirusmiti.
- 10. Skoðum brjóstin mánaðarlega og þiggjum boð um að mæta reglulega í brjóstamyndatöku
- eftir fertugt.
Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Krabbameinsfélagsins: www.krabb.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.