Heimskautarefur truflaði ökumann
feykir.is
Skagafjörður, Austur-Húnavatnssýsla, Vestur-Húnavatnssýsla
25.10.2019
kl. 11.18

Bifreiðin var dregin upp á veg með dráttarbifreið. Mynd af Facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.
Afspyrnuslæmt veður var á Norðurlandi vestra í gær, blint og mikill skafrenningur að því er segir á Facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Bifreið fór út af veginum í Langadal í gærkvöldi þegar ökumanni fipaðist aksturinn og gaf hann þá skýringu að „arctic fox“ hefði hlaupið fyrir bílinn.
Í bifreiðinni voru erlendir ferðamenn og sluppu þeir án meiðsla. Var bifreið þeirra, sem var lítið skemmd, dregin upp á veg með dráttarbifreið og gátu ferðalangarnir haldið áfram ferð sinni.
Á vef Vegagerðarinnar segir að á Norðurlandi sé vetrarfærð og víðast nokkur hálka eða snjóþekja. Ekki er fyrirstaða á aðalleiðum en sumstaðar þæfingur á sveitavegum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.