Hér hvílir séra Marteinn prestur - Vígsla sögutorgs í Höskuldsstaðakirkjugarði

Miðvikudaginn 26. september heimsótti biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, Höskuldsstaðakirkju og var með helgistund í kirkjunni. Að henni lokinni var gengið út í elsta hluta kirkjugarðsins þar sem biskup vígði sögutorg sem hlaðið var í sumar. Sögutorgið er hlaðið úr grjóti, klætt utan með grasþökum og hellulagt með náttúrugrjóti.

Inni í sögutorginu er á stalli gamall  rúnalegsteinn sem talinn er hafa verið settur yfir Martein Þjóðólfsson, prest á Höskuldsstöðum, dáinn 1383. Steinninn er stuðlabergssteinn og trúlega sóttur í Stafanúpinn fyrir ofan Höskuldsstaði.

Hér hvílir séra Marteinn prestur, stendur með rúnaletri á steininum. Mynd: Björg Bjarnadóttir.„Á honum stendur með greinilegu rúnaletri Hér hvílir séra Marteinn prestur. Er rúnasteinsins getið í skýrslu til fornleifanefndar 1820 og einnig í vísitasíu 1910. Innan sögutorgsins verður hann vel sýnilegur í framtíðinni og aðgengilegur þeim sem leggja leið sína í kirkjugarðinn. Helgi Sigurðsson, frá Ökrum í Blönduhlíð, sá um að hlaða sögutorgið en hönnuður þess er Guðmundur Rafn Sigurðsson, umsjónarmaður kirkjugarða,“ segir Björg Bjarnadóttir sóknarnefnd Höskuldsstaðakirkju.

Hún segir minningarsjóð hjónanna frá Garði og Vindhæli og Uppbyggingarsjóð Norðurlands vestra hafa styrkt þetta verkefni myndarlega ásamt kirkjugarðasjóði. Fyrirhugað er einnig að koma tveimur 19. aldar minnismerkjum fyrir innan sögutorgsins en þau þarfnast nokkurrar viðgerðar. Sömuleiðis verður komið þar fyrir upplýsingaskilti um sögu Höskuldsstaðakirkju og skýli yfir rúnasteininn til að verja hann umhverfisáhrifum. Sögutorgið er hlaðið úr grjóti, klætt utan með grasþökum og hellulagt með náttúrugrjóti. Mynd: Björg Bjarnadóttir.

Bryndís Valbjarnardóttir, sóknarprestur á Skagaströnd , segir í pistli á Húna.is að núverandi sóknarnefnd Höskuldsstaðasóknar hafi fyrst fyrir fjórum árum frétt af rúnasteininum í kirkjugarðinum. Ákveðið hafi verið að búa betur um steininn og gera hann sýnilegri með því að flytja hann sem næst þeim stað þar sem hans er fyrst getið í síðari tíma heimildum um 1820.

Meðfylgandi myndir tók Björg Bjarnadóttir frá vígsludeginum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir