Hitaveitulögn yfir Héraðsvötnin í sundur
Önnur heitaveitulögnin sem færir íbúum Blönduhlíðar í Skagafirði heitt vatn úr borholu á Reykjarhóli bilaði á þriðjudaginn með þeim afleiðingum að þrýstingur féll og lítið vatn barst yfir Héraðsvötnin.
Að sögn Gunnars Björns Rögnvaldssonar verkstjóra hjá Skagafjarðaveitum á eftir að finna út um orsök bilunarinnar en leiðslan hefur farið í sundur þar sem hún liggur rétt neðan við Héraðsvatnabrúna við Varmahlíð.
Helst er talið að lögnin hafi farið í sundur vegna þrýstingshögga sem orsakaðist vegna rafmagnstruflana sem urðu á svæðinu um morguninn. Þegar rafmagnið kemur inn fara dælur í gang sem framkalla höggin en þau munu hafa orðið nokkur.
Nú rennur allt það hitaveituvatn sem Blöndhlíðingar þurfa, sem á annað borð eru tengdir Skagafjarðaveitum, um eina lögn og afkastar hún jafn miklu og þegar þær voru tvær, áður en bilunin varð.