Hljóðleiðsögn um torfhúsin á Lýtingsstöðum

Á Lýtingsstöðum í Skagafirði var nýlega sett upp hljóðleiðsögn um torfhúsin sem þar eru staðsett en þar er fólk frætt um Lýtingsstaði, torfhúsin á Lýtingsstöðum, íslenska hestinn og hlutina sem tengjast hestinum og landbúnaði og eru til sýnis í torfhúsunum. Um er að ræða skemmtilega blöndu af fróðleik og tónlist og tekur um það bil hálftíma.

Leiðsögnin er sett upp á íslensku, ensku, þýsku og frönsku og fær fólk heyrnatól og MP3 spilara til að hlusta. Leiðsögnin var sett saman af Evelyn Ýr en hún er menningarfræðingur og leiðsögumaður að mennt og var mikill metnaður lagður í verkefnið sem styrkt er af Uppbyggingasjóði NV.

„Torfhúsin voru byggð 2014 og í þeim er sett upp sýning. Í öðru húsi er gamaldags hesthús og skemma í hinu. Torfrétt var hlaðin í haust norðan við húsin. Torhúsin eru opin daglega fram að hausti frá klukkan 9:00 til 19:00. Við bjóðum upp á ókeypis aðgang og hljóðleiðsögn fram til 15. júní til að kynna okkar skemmtilega framtak,“ segir Evelyn og ástæða er til að hvetja fólk til að heimsækja Lýtingsstaði í sumar.

Fleiri fréttir