Hópur útilegufjár heimtur af fjalli

Hluti eftirlegufjárins kominn á hús, eflaust feginn tuggunni. Mynd: Hafdís Skúladóttir.
Hluti eftirlegufjárins kominn á hús, eflaust feginn tuggunni. Mynd: Hafdís Skúladóttir.

Í síðustu viku náðist að koma 16 kinda hópi til byggða sem höfðust við í Stakkfellinu í Vesturfjöllum í Skagafirði. Það var Andrés Helgason, bóndi í Tungu í Gönguskörðum, sem gerði sér ferð í fjöllin og kom fénu heim.

Aðspurður um leiðangurinn sagðist Andrés hafa verið einn að þvælast og gengið þokkalega en hafi tekið sér tvo daga í verkefnið. Laugardaginn 18. janúar fór Andrés á sleða og varð var við þrjá kindahópa í Stakkfellinu og náði að sameina þá og reka yfir í Hryggjafjall. Þá var komið myrkur og ekki hægt að eiga meira við hópinn að sinni. Vegna veðurs gafst ekki færi á að athuga með féð fyrr en næsta þriðjudag og tókst þá að koma því til byggða. Í hópnum var kind sem ekki hefur sést heima hjá sér lengi þar sem hún lá úti í fyrravetur og hefur verið á fjalli síðan í júní 2018.

Að sögn Andrésar voru kindurnar í ágætu ásigkomulagi og þrátt fyrir slæm veður hafi runnið úr þeim snjórinn þegar hlánað hefur, svo ekki voru þær sligaðar af snjó. Hann segir að það ætti ekki að koma mönnum á óvart að fé hafi verið í fjöllum þar sem vitað var um eftirlegukindur frá því í haust en þær hafi ekki verið sóttar. Eitthvað vantar bændur enn af fjalli en Andrés á ekki von á því að fleiri finnist á lífi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir